Nýlega horfði ég á hernaðarspekúlant á sjónvarpsstöðinni CNN segja frá því, í kjölfar þess að nokkrir bandarískir hermenn létu lífið, að hingað til hefði innrásin í Afganistan gengið nákvæmlega eftir formúlunni. Formúlan er sú að innrásarherinn nær tökum á helstu vígjum og borgum á skömmum tíma en í kjölfarið fylgi langt og erfitt skærustríð.
Fyrir nokkrum dögum náðu Talibanar og meðlimir Al-Qaeda að skjóta niður herþyrlu með átta mönnum. Þetta var fyrsta verulega áfallið í stríðinu í Afganistan sem Bandaríkjamenn verða fyrir og ljóst er að hvert mannsfall mun auka á óánægju þjóðarinnar yfir hernaðarátökunum, sérstaklega í ljósi þess að flestir Bandaríkjamenn hafa fengið góða ástæðu til að trúa að sigurinn væri þegar í höfn. Ef hernaðarsérfræðingurinn hefur rétt fyrir sér og stríðið í Afganistan dregst á langinn þá má fara að velta því fyrir sér hvort samlíking við Víetnamstríðið sé jafnóraunsæ og fyrst hefði mátt ætla.
Á fyrstu árum stríðsrekstrar í Víetnam á sjöunda áratugnum voru Bandaríkjamenn mjög fylgjandi aðgerðunum, enda fengu þeir fátt annað en góðar fréttir af árangrinum. Eftir því sem mannfall jókst magnaðist andstaðan og undir lokin var almenningur orðinn algjörlega fráhverfur hugmyndinni um að fórnir Bandaríkjanna í Víetnam réttlættust af þeim hagsmunum sem verið var að verja. Stóri munurinn í tilviki Afganistan er vitaskuld sá að í fyrsta skiptið síðan 7. desember 1941 urðu Bandaríkin fyrir beinni árás í formi hryðjuverkanna 11. september. Árásaraðilinn, Al-Qaeda, naut stuðnings ríkisstjórnar Afganistan og því mátti færa rök fyrir því að aðgerðirnar gegn Talibönum væru í þágu öryggishagsmuna Bandaríkjanna á mjög einfaldan og rökréttan hátt. Áframhaldandi stríðsrektur verður hins vegar sífellt erfiðara að rökstyðja fyrir Bandaríkjamönnum, sérstaklega ef staðbundinn hernaður í Afganistan heldur áfram í nokkur ár og fleiri “synir og dætur Bandaríkjanna” falla í valinn.
Það verður ákaflega vandasamt fyrir Bandaríkjamenn að koma í veg fyrir að aðgerðirnar í Afganistan, og hugsanlega víðar, missi stuðning heimafyrir. Hernaðaraðgerðir gegn öðrum ríkjum verður sífellt erfiðara að réttlæta auk þess sem þær munu kynda undir hatursbál múslima gagnvart Bandaríkjunum. Þó er ljóst að aðgerðirnar í Afganistan eru nauðsynlegar og að mannfall er óhjákvæmilegt. George Bush hefur lagt mikla áherslu á það frá upphafi að koma þjóð sinni í skilning um að baráttan gegn hryðjuverkum verði ekki unnin á einni nóttu og mun sá málflutningur hans vafalaust hjálpa til við að halda nægjanlegum stuðningi til áframhaldandi aðgerða.
Stríð eru í eðli sínu ógeðsleg. Þau snúast um það að binda endi á líf nægilega margra andstæðinga til þess að brjóta vilja þeirra. Siðferðislega getur aldrei verið réttlætanlegt að myrða mann í stríði fyrir málstað nema maður sér sjálfur tilbúinn að fórna sínu eigin lífi fyrir sama málstað. Það er vonandi að Bandaríkjamenn geri sér grein fyrir því að mannfall er kostnaðurinn við það að standa í stríðsrekstri – og eins er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að öll líf eru jafnverðmæt – og að fall eins óbreytts afgansks borgara er sorglegra en dauði hermanns, sama úr hvaða röðum hann kemur.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021