Fyrir kosningar er siður stjórnmálamanna að grípa til sjónglerjanna. Stjórnarliðar setja upp sólgleraugun og lýsa því yfir að nú ríki skínandi góðæri og kjósendur þurfi aðeins að kjósa rétt og þá blasi við enn betri tíð með blóm í haga. Á sama tíma setjast stjórnarandstæðingar niður fyrir framan smásjána og leita að flísum í augum náungans. Þeir lofa síst minnu en stjórnarliðar, kjósendum er lofað gulli og grænum skógum ef þeir aðeins sjá að sér og skipta um mann í brúnni.
Þegar talið er upp úr kjörkössunum eru úrslitin að öllu jöfnu á annan veginn eða hinn, og oftast ráðast þau af því hvaða fylking lofaði mestu á sem trúverðugastan hátt. Kosningabarátta þeirra írsku stjórnmálamanna sem börðust fyrir samþykkt Nice sáttmálans í írsku þjóðaratkvæðagreiðslunni var því um margt sérstök, því smásjá kæmi að mun betri notkun en sólgleraugu, ef grandskoða ætti ljósu punktana í þessum sáttmála fyrir Íra.
Í stuttu máli fjallar þessi sáttmáli um það að skerða á vald Íra og annarra smærri ríkja á kostnað fjölmennari ríkja sambandsins. Þetta er gert til að straumlínulaga sambandið og auka skilvirkni í stjórnun. Ástæða þess að ekki verður hjá því komist er sú að til stendur að taka inn tólf ný ríki í sambandið. Þegar þau verða komin inn minnka áhrif Íra enn frekar í sambandinu. Að auki eru þessi lönd mun fátækari en núverandi aðilar, svo líklegt er að í kjölfarið muni útgjöld Íra til sambandsins aukast, á meðan tekjur þeirra minnka.
Í staðinn fyrir þetta fá Írar – hér um bil ekkert. Samkomulag náðist reyndar um að skerða ekki ákvörðunarrétt Íra í eigin skattamálum að svo stöddu og Írar halda hernaðarlegu hlutleysi sínu enn um sinn. En þessar tilhliðranir standa varla undir nafni, einungis er samþykkt að taka ekki jafn mikið af Írum og ýmsir vildu.
Í raun byggðist kosningabarátta fylgjenda sáttmálans annars vegar á því að Írar, sem hefðu fengið svo mikið frá sambandinu, bæru siðferðislega skyldu til að samþykkja samninginn og hins vegar var ýjað að því að afgangurinn af Evrópu færi í fýlu og myndi leggja þá í einelti ef sáttmálanum yrði hafnað. Merkilegt nokk virðist Írar hafa tekið þessi rök til sín, því þeir samþykktu sáttmálann með nokkrum mun. Fyrir það eru þjóðir Evrópu, sér í lagi þær sem nú banka á dyr sambandsins, þakklátar. Niðurstaðan er auk þess jákvæð fyrir sambandið á fleiri en einn þátt, því fyrir utan að greiða götuna til stækkunar gefur þetta vísbendingar um að kjósendur Evrópulanda geti tekið tillit til heildarinnar ef þeirra álits er leitað.
Það er óskandi að þeir sem sitja við kjötkatlana í Brussel horfi til þessa og að stjórnun sambandsins verði í framtíðinni lýðræðislegri og vilji kjósenda skipti þar einhverju. Fórn hins Írska kjósanda um helgina sýnir að íbúum Evrópusambandsins er treystandi til að axla ábyrgð á stjórn þess, og tími til kominn að þeim sé falið það vald sem þeim ber.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020