Ein af athyglisverðari fréttum af stríðinu í Afganistan síðustu vikurnar er frétt þess efnis að bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, hafi gengið til samstarfs við Hollywood framleiðandurna Jerry Bruckheimer og Bertram van Munster um að framleiða sjónvarpsþáttaröð um stríðið. Þáttaröðin á að heita Profiles from the Front Line og á víst að vera framleidd að fyrirmynd „raunveruleika”-þáttanna sem hafa farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina á síðustu árum.
Van Munster er þekktastur fyrir framleiðslu á þáttunum Cops, „raunveruleika”-þáttaröð um störf lögreglumanna í Bandaríkjum. Jerry Bruckheimer þekkja væntanlega flestir bíómyndagestir. Síðan á fyrri hluta níunda áratugarins hefur hann verið sá framleiðandi kvikmynda í Bandaríkjunum sem notið hefur mestrar velgengni, þ.e. ef velgengni er mæld í krónum og aurum. Snemma á ferlinum framleiddi Bruckheimer myndir á borð við Top Gun og Beverly Hills Cop. Á síðari árum hefur hann framleitt „stórmyndir” á borð við The Rock, Armageddon, Con Air, Pearl Harbor og nú síðast Black Hawk Down.
Bruckheimer er hins vegar alger nýgræðingu hvað „raunveruleika”-þætti varðar. Raunar má segja að Bruckheimer hafi verið leiðandi í framleiðslu á veruleikafirtu efni í Hollywood á síðustu árum. Það verður því áhugavert að fylgjast með Bruckheimer í þessu nýja hlutverki.
Samningur tvímenninganna og Pentagon hefur reyndar mætt nokkurri gagnrýni vestanhafs síðan hann spurðist út fyrir hálfum mánuði. Hörðust hefur gagnrýnin verið frá bandarískum fréttamönnum sem að undanförnu hafa kvartað yfir ströngum hömlum á aðgangi þeirra að vígstöðvunum. Þannig sagðist Dan Rather hjá ABC sjónvarpsstöðinni vera hneykslaður á „Hollywoodization” hersins á meðan venjulegir fréttamenn hafa þurft að berjast fyrir „bare-bones access” að upplýsingum um stríðið.
Fréttaflutningur af hörmungum stryjalda er tiltölulega nýtilkomið fyrirbæri og hefur án efa átt verulegan þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað í hinum vestræna heimi hvað stríð varðar á síðustu hundrað árum. Nú virðast hins vegar Bush og félagar hafa fengið nóg af þessari þróun. Þeir hafa snúið vörn í sókn. Í stað frétta af stríðinu fáum við Bruckheimer myndir. Hver veit nema þær rómantísku hugmyndir um stríð sem voru alls ráðandi fyrr á tímum (og eru alls ráðandi í myndum Bruckheimers) eigi eftir að ná fótfestu á nýjan leik á næstu árum.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009