,,Morgunhanarnir Jóhanna og Þórhallur keppast við að vekja landann með áhugaverðum umræðum og fjölbreyttu efni alla virka morgna“ – þetta er þau orð sem viðhöfð eru til að lýsa morgunþættinum Íslandi í bítið á Stöð 2. Ekki er hægt að segja að þessi lýsing eigi við um viðtal morgunhananna við Jóhannes Jónsson í gærmorgun.
Viðtalið byrjaði svo sem ágætlega, viðmælandi var spurður almennra spurninga um vöruverð og hvort yfirgnæfandi markaðsstaða Baugs hefði ekki neikvæð áhrif fyrir neytendur. Eftir ,,stutt“ auglýsingahlé var hins vegar sem þáttastjórnendur hefðu lagst í skotgrafir og ákveðið að reyna að skjóta sem flestum skotum neðan beltisstaðar sem var í hæsta máta ósanngjarnt. Má í þessu sambandi sérstaklega minnast á nokkur atriði sem urðu þáttastjórnendum til lítilsvirðingar og skammar.
Í byrjun seinni hluti viðtalsins varð strax ljóst að hann yrði ólíkur þeim fyrri. Skyndilega fóru þáttastjórnendur að veifa einhverju sem líktist skjölum og krefja Jóhannes um skýringar á því sem í þeim stóð. Þetta voru, samkvæmt þáttastjórnendum, skjöl sem innihéldu ýmsar upplýsingar um málefni verslana Baugs, s.s. álagningarútreikninga og reikninga frá innflutningsfyrirtækinu Nordica.
Augljóst var að Jóhannesi var brugðið þegar morgunhanarnir greindu frá því að gögnin væru unnin af innanhúsfólki hjá Baugi og influtningsfyrirtækinu Nordica og greinilegu markmiði þáttastjórnenda um að setja viðmælanda sinn út af laginu var náð. Nær hefði verið að gefa Jóhannesi færi á að undirbúa sig undir spurningar af þessu tagi, sérstaklega í ljósi þess að almennt er vitað að hann kemur ekki að daglegum rekstri Baugs og því fyrirgefanlegt að hann hafi það ekki á takteinunum hvaða álagningu ananas-dós frá einum ákveðnum innflytjenda ber.
Þá var hvergi minnst á áreiðanleika og sannleiksgildi gagnanna en þau voru að einhverjum hluta komin frá innflutningsfyrirtækinu Nordica. Ekki er skrýtið þótt áhorfendur velti fyrir sér sannleiksgildi þeirra í ljósi umfjöllunar liðinna mánaða um samskiptaörðugleika og illinda milli stjórnenda Baugs og Nordica.
Í öðru lagi hlýtur það að hafa stuðað hinn almenna neytenda að heyra annan morgunhanann segja að það ,,skipti ekki máli“ þótt að vöruverði í Bónus væri lægst en það voru þau rök sem Jóhannes reyndi hvað helst að ítreka máli sínu til varnar. Það hlýtur að skipta ,,öllu“ máli í þessu samhengi að verslun Baugs sé með lægsta vöruverð á landinu og skrýtið að ekki hafi verið reynt að finna samanburð á því hvað samkeppnisaðili eins og Kaupás leggur á sína ananas-dós, í það minnsta að sýna verð slíkrar dósar til samanburðar. Hinn almenni neytandi getur ekki verið annað en jákvæður yfir vöruverðinu í Bónus, í það minnsta í samanburði við aðrar verslanir.
Augljóst er að þáttastjórnendur hlupu illilega á sig í gærmorgun og verður ekki annað séð en að markmiðið með þessum umræðum hafi umfram allt verið að skapa múgæsing í stað áhugaverðrar umræðu. Með dónalegum framígripum varð trúverðugleiki morgunhananna þar að auki lítill. Vonandi sjá þau Jóhanna og Þórhallur sér leik á borði og leiðrétta fyrir mistök sín með áhugaverðari og gagnlegri umræðum í framtíðinni.
- Elsku vinir, koma svo - 31. maí 2021
- Yndisleg borg í blíðviðri - 24. júlí 2006
- Mikilvæg málefni - 13. maí 2006