Bækur og hryðjuverk

Þótt margir hafi skrifað um ástæður að baki hryðjuverkunum 11. september gera það fáir af meiri innlifun en Thomas L. Friedman dálkahöfundur The New York Times. Bók hans Longitudes and Attitudes er að mörgu leiti óvenjuleg.

Árásirnar á Tvíburaturnanna þann 11. september hafa haft margvísleg áhrif á efnahagsmál í heiminum. Mikil niðursveifla varð á tímabili en einn er sá iðnaður sem þrífst ágætlega á atburðinum, nefnilega bókaútgáfa. Aðeins örfáum dögum eftir atburðina birtust í verslunum doðrantar sem áttu að útskýra hvers vegna þetta gerðist og síðan þá hafa mörg þúsund komið út. Eðlilega eru þeir jafn misjafnir og þeir eru margir en þó er ástæða til að mæla sérstaklega með ákveðinni bók.

Longitudes and Attitudes eftir Thomas Friedman, dálkahöfund The New York Times, er í raun safn dálka frá því í desember 2000 til júlí 2002. Auk þess birtir höfundur dagbókarfærslur sínar frá sama tímabili. Það er auðvitað forvitnilegt að skyggnast inn í hugarheim þeirra sem upplifðu atburðina en þó eru ákveðnar ástæður sem gera það að verkum að bók Friedmans er sérstaklega áhugaverð.

Fyrir það fyrsta þá er Friedman bandarískur gyðingur sem hefur dvalið lengi í Mið-Austurlöndum. Hann skrifar því af meiri þekkingu um deilur milli þjóðfélaga og trúarhópa en flestir aðrir. Hann er liberalisti eins og svo margir úr hans stétt og deilir iðulega á ráðandi öfl í Bandaríkjunum. Hann ræðst harkalega gegn þeim sem reyna að kenna Bandaríkjunum um hryðjuverkin einfaldlega vegna þess að aldrei sé hægt að réttlæta slíkan verknað. Hann gagnrýnir Arafat af sömu ástæðu um leið og hann hvetur Sharon til að breyta stefnu stjórnarinnar.

Friedman telur að Bandaríkin hafi gert margt rétt eftir 11. september en um leið vekur hann menn til umhugsunar um það að hin raunverulega barátta verði að eiga sér stað innan hins islamska samfélags. Með því að aðlaga Islam að nútímanum megi koma á friði í Mið-Austurlöndum en til þess að það gerist þurfi ríkisstjórnir á svæðinu að ráðast gegn ofstækisfullum trúarhópum. Bandaríkin geti ekki treyst á einhliða aðgerðir til að tryggja stöðugleika.

Besti kafli bókarinnar eru þó dagbókarfærslur frá 11. til 15. september. Þá lýsir hann því hvernig honum var innanbrjósts eftir árásirnar en hann var þá staddur í Ísrael. Fjölskylda hans óttaðist um öryggi hans á svæðinu en að lokum var það hann sem þurfti að hafa áhyggjur af þeim. Hann áttar sig á því að heimurinn sem við lifum í er breyttur. Við getum ekki lengur tekið því sem vísu að opið þjóðfélag sé endilega besta lausnin. Hugsanlega verðum við að fórna ákveðnum hluta frelsisins fyrir meira öryggi. Um leið lýsir hann því hversu mikið hann reiddist þegar hann uppgötvaði að hans heimur, heimurinn fyrir 11. september, er ekki sami heimur og dóttir hans muni alast upp í.

Dálkar Friedmans fjalla um margvísleg efni og það er nánast öruggt að lesendur bókarinnar munu vakna til vitundar um erfiðleika sem steðja að öðrum svæðum. Okkur sem lifum í tiltölulega vernduðum heimi er sérstaklega hollt að lesa slíkar bækur, laus við fyrirfram gefna skoðanir eða fordóma.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)