Við þurftum ekkert að líta á dagatalið þessa helgina til að vita að haustið er komið. Það skall á okkur.
Haustinu fylgja ekki einungis haustlægðir með fjúkandi trampólínum og stífluðum niðurföllum. Haustið er, rétt eins og áramótin, tími til að setja sér ný markmið. Fríið er búið og verið er að skipuleggja rútínuna sem framundan er næstu mánuðina. Alþingismenn koma úr fríi, rétt eins og við hin, pólitíkin fer á fullt, þing verður sett og fjárlög verða lögð fram.
Það er regla á mínu heimili að byrja ný tímabil með fáum og einföldum reglum. Tvær til þrjár reglur þykja til dæmis mjög hentugar, bæði fyrir mig og barnið. Fyrir barnið eru reglurnar á þá leið að nú skuli sofnað í sínu rúmi og setja diskinn í vaskinn þegar búið er að borða. Hjá mér verður það eitthvað á þá leið að borða ekki eftir klukkan 20.00 og hringja oftar í vini míni. Svo er bara að hjakkast á þessu nóg og lengi, tala um reglurnar, skrifa þær á miða og standa við þær. Ef reglurnar eru mikið fleiri, má búast við því að þeim verði einhvern veginn forgangsraðað þannig að helmingurinn gleymist. Þá fylgir því alltof mikil togstreita og óöryggi að setja reglur og markmið sem líklega verður aldrei staðið við.
Ég velti því fyrir mér hvort það gæti ekki verið farsælt fyrir ríkisstjórnina, rétt eins og okkur hin, að setja sér tvær einfaldar reglur í upphafi hvers vetrar og einbeita sér að því að standa við þær. Fyrir komandi vetur gætu þær t.d. verið eitthvað á þessa leið; afnema gjaldeyrishöftin og alltaf að mæla sannleikanum samkvæmt.
Rétt eins og reglurnar heima hjá mér, eru þetta einfaldar reglur sem allir ættu að vera sammála um og ef þær verða virtar verður líf okkar svo miklu betra. Seinni reglan hentar vel fyrir alla aldurshópa og um hana þarf vart að hafa fleiri orð.
Fyrri reglan er vissulega flóknari í útfærslu, en nú þegar ríkisstjórnin er að hefja sinn annan vetur af tiltölulega farsælu samstarfi og umdeild loforð eru langt komin með að vera efnd, þá ríður á að efna þau sem eru algjörlega óumdeild og mestu máli skipta – afnám gjaldeyrishaftanna. Ef komist verður að þeirri niðurstöðu að gjaldeyrishöftin verða aldrei afnumin þá er líka rétt að segja okkur það – þjóðin er að þessu leyti eins og lítið barn. Það er lang lang best að undirbúa hana vel og vandlega fyrir öll tíðindi, bæði góð og slæm.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020