“Réttindi okkar koma frá Guði, ekki ríkisstjórninni”. Þannig hljómaði þýðing íslenskra miðla á lífsskoðun stjórnmálamanns í Repúblikanaflokknum. Það var hlegið að þessu á íslenska netinu. Ég veit að þessi setning er röng. Og hún er undirstaða alls sem ég trúi á.
Hér væri “ríkisvaldið” líklegar betri þýðing á “government” en “ríkisstjórnin” en það er kannski ekki aðalatriðið. Aðalspurningin er “hvaðan koma lög”? Og það sem á eftir fylgir: Getum við sett lög um hvað sem er?
Byrjum bara einhverju léttmeti: var Helförin lögleg? Nasistar komust til valda með kosningum. Þeir settu fullt af ógeðslegum rasistalögum, sáu svo til að Hitler gæti stjórnað landinu með tilskipunum og afganginn þekkja flestir. Hér væri hægt að fara í tæknilega umræðu um hvort öll þessi skref hafi verið tæknilega lögleg en það er kannski ekki aðalatriðið. Við getum ímyndað atburðarrás þar sem harðstjórn sviptir stóran hluta þegna sinni rétti til lífs með lögfræðilega óaðfinnanlegum hætti. Er þjóðarmorð við slíkar aðstæður þá löglegt?
Það er ekki af tilefnislausu að menn fóru að setja hvers kyns mannréttindasamninga á fót eftir seinna stríð. Svona til að árétta að sum réttindi væru óhagganleg. Mörg ríki hafa undirritað þessa samninga og lögfest. Flest ríki, jafnvel þau ógeðslegustu, hafa sett þessi réttindi í stjórnarskrár sínar og landslög, hafi þau ekki verið þar áður. Þannig var til dæmis hægt að benda á að harðstjórnir Austur-Evrópu hafi brotið lög. Þau brutu mannréttindaákvæði eigin stjórnarskráa.
Manni getur liðið aðeins betur með þessa umgjörð. Gott mál. En segjum að einhver ríki segi bara upp öllum mannréttindasáttmálum sem þau eru aðili að. Segjum að ríki hendi mannréttindum úr sínum stjórnarskrám. Má þá allt?
Margir myndu vilja meina að það séu til einhver réttindi sem er ekki á okkar valdi að breyta: Fólk hafi rétt til lífs. Fólk hafi rétt til að vera ekki þrælar. Mig langar að vera í þeim hópi. Textar sem eru á þessum nótum höfða til mín. Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna lýsir þeirri hugmyndafræði: “Vér ætlum þessi sannindi auðsæ af sjálfum sér: – að allir menn eru skapaðir jafnir;”. Ekki: “við höfum ákveðið að allir eigi að vera jafnir”. Nei, þeir ERU það.
Í sjálfstæðisyfirlýsingunni koma þessi réttindi frá Guði. Nú trúi ég ekki á guð. Hvaðan koma þau þá? Sumir líta svo á að til séu einhver “náttúrulög” sem ná yfir önnur lög. Við getum þá kannski litið svo á að hægt sé að nota guð í lögfræðilegum skilningi eins og Einstein gerði í eðlisfræði. Sem feluorði fyrir einhverskonar “alheimsreglu”. En ef ég greini það í sundur þá kemst ég óhjákvæmilega að því að sum réttindi eru “óhagganleg” vegna þess að nógu mörgu fólki sem skiptir máli finnst að svo eigi að vera.
***
Ég ímynda mér stundum að ég sitji í 2000 manna geimskipi á leið til Alfa Sentárí. Ekkert okkar mun snúa aftur til Jarðar. Samskipti við jörðina hafa rofnað. Ég er á fundi um framtíð samfélagsins.
Einhver segir: “Við ráðum náttúrlega alveg sjálf hvernig við höfum þetta.”
Ég þykist vita að það er rétt. En það skelfir mig samt.
***
Ég hef stundum reynd að útskýra þetta svona fyrir sjálfum mér: “Þróunarkenningin er vísindaleg staðreynd. En vond hugmyndafræði til að grundvalla samfélag á. Mannréttindi koma frá fólki. En það er ekki gott að hugsa það þannig. Kommúnistar hugsuðu þetta þannig. Sjáið hvernig það gekk.”
Mér finnst þetta stundum ágætisredding, ens samt varla. Oftast reyni ég bara að leiða hugann að öðru. Því mér finnst þetta erfitt.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021