Kúba: 1962

Um þessar mundir stendur yfir ráðstefna á Kúbu af því tilefni að fjörutíu ár eru liðin frá hinni svokölluðu Kúbudeilu. Ljóst er af skjölum og upplýsingum, sem nú fyrst hafa komið fyrir augu almennings, að heimurinn stóð mun nær barmi hengiflugsins þessa örlagaríku daga árið 1962 en áður var talið.

Um þessar mundir stendur yfir ráðstefna á Kúbu af því tilefni að fjörutíu ár eru liðin frá hinni svokölluðu Kúbudeilu þar sem litlu mátti muna að Bandaríkin og Sovétríkin hæfu kjarnorkustríð vegna ágreinings um veru sovéskra kjarnavopna á Kúbu. Eins og velflest sæmilega lesið fólk veit þá endaði deilan með því að Sovétmenn hurfu á brott frá eyjunni með allt sitt hafurtask og svokallaðri „rauðri símalínu“ var komið á á milli Hvíta hússins og Kremlar til að auðvelda samskipti leiðtoga risaveldanna á ögurstundum sem þessum.

Á ráðstefnunni hafa komið fram á sjónarsviðið skjöl og upplýsingar sem aldrei áður hafa fyrir augu almennings borið. Þar kemur fram að heimurinn var í raun mun nær því að glatast í kjarnorkustyrjöld en menn höfðu áður talið.

Í fyrsta lagi varpaði bandarískur tundurspillir, sem gæta átti þess að siglingabannið við Kúbu yrði ekki rofið, djúpsprengjum á rússneskan kafbát undan ströndum Kúbu. Bandaríkjamenn vissu ekki að um borð í kafbátnum voru kjarnorkuvopn og nú hefur komið í ljós að áhöfn bátsins hélt um stund að stríð væri skollið á og íhugaði að beita þessum vopnum gegn bandarískum skotmörkum. Sem betur fer komst hún að annarri niðurstöðu og báturinn kom upp á yfirborðið.

Seinna atriðið er öllu óhuggnanlegra. Meðan á deilunni stóð héldu bandarísk stjórnvöld að einungis væri búið að koma fyrir eldflaugum á kúbverskri grund en að kjarnaoddarnir hefðu ekki enn komist þangað. Hið sanna í málinu er að á þeim tíma voru 162 kjarnaoddar á Kúbu og hefði verið hægt að koma þeim fyrir í eldflaugunum og skjóta þeim að Bandaríkjunum með skömmum fyrirvara.

Að sögn Roberts McNamara, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, var stjórnvöldum í Washington mikið í mun að koma í veg fyrir að kjarnaoddarnir, sem þau vissu ekki að væru þegar komnir, kæmust í land. Segir hann að menn hafi íhugað það af mikilli alvöru að ráðast á Kúbu úr lofti og af legi og að um 250.000 manna innrásarlið yrði notað til að taka eyjuna.

Ljóst þykir að ef til þess hefði komið hefði um helmingur þeirra 162 kjarnavopna, sem þegar voru á Kúbu, verið notaður gegn innrásarliðinu. Bandaríkjamenn hefðu að öllum líkindum svarað í sömu mynt með kjarnorkuárás á Kúbu og það hefði svo leitt til kjarnorkustríðs milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Það athyglisverðasta af öllu er það sem McNamara sagði um afstöðu Fidels Castro, einræðisherra á Kúbu. Hefur ráðherran fyrrverandi það eftir Castro að hann hafi, í samtölum við Krútsjoff, mælt með notkun kjarnorkuvopna gegn bandarísku innrásarliði þrátt fyrir að hann hefði gert sér fulla grein fyrir því að ein afleiðing þess yrði alger eyðilegging Kúbu.

Af Kúbudeilunni má draga tvenns konar lærdóm.

Í fyrsta lagi að hægt sé að leysa hin erfiðustu alþjóðlegu deilumál með friðsamlegum hætti.

Í öðru lagi að stundum verða leiðtogar lýðræðisríkja að hafa kjark til að standa uppi í hárinu á einræðisherrum þegar af þeim stafar of mikil ógn, hvort sem um er að ræða Sovéska, Kúbverska eða Íraska einræðisherra, og að hafa kjark til að standa við stóru orðin þegar til kastanna kemur.

Galdurinn er bara að vita hvaða leið á að fara hverju sinni.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)