Ég er hægrimaður. Ég trúi ekki á guð. Ég þykist vera vísindalega þenkjandi. Stundum finnst mér eins og ég sé búinn að negla heimsýn mína og hugmyndafræði í nokkuð þéttan pakka en af og til rekst ég á það að ég á erfitt með að rökstyðja það sem ættu að vera algerar forsendur þess sem ég trúi á.
Eitt af þessu dóti er frjáls vilji. Frjáls vilji er… Sko ég lendi strax í vandræðum. Ég get ekki einu sinni búið til almennilega skilgreiningu á þessum frjálsa vilja sem við mörg höfum samt gríðarlega sterka tilfinningu fyrir að við höfum. Það er að segja að, ég veit það ekki, að ef ég vel tölu milli núll og hundrað þá sé ég virkilega að “velja”. Ég setti “velja” milli gæsalappa en ég er samt engu nær hvað það þýðir.
Það eru einhver atóm að rótast í hausnum á okkur sem ráða því hvaða tölu við veljum. Kannski eru þetta handahófskennd ferli, kannski fyrirfram ákveðin, kannski klofnar alheimurinn sífellt í óendanlega marga alheima þar sem allar tölur eru valdar einhvers staðar, hver veit. En það skiptir engu. Það er ekkert pláss fyrir frjálsan vilja neins staðar þarna.
Það er ekki bara að það sé erfitt að sannreyna frjálsa viljann. Til að frjáls vilji gæti verið til sem vísindalegt konsept þyrfti ég að geta skilgreint hann og síðan geta ákveðið hvort mannfólkið hafi hann eða ekki. Ég kemst ekki einu sinni svo langt að búa til hugsanlegan alheim þarsem frjáls vilji meikar nokkur sens.
Ef ég væri trúaður þá gæti ég einhvern veginn sótt frjálsa viljann út fyrir efnisheiminn. Og satt að segja hefur þetta þótt eitt af fáu góðu í heimsmynd sumra trúarbragða. Skítt með eilíft líf. Ég vil fá að velja sjálfur hvernig ís ég fæ. Og það pirrar mig að ég tel mig vita að ég geri það ekki í raun.
Ef ég væri vinstrimaður þá hugsa ég að þetta myndi ekki valda mér jafnmiklum heilabrotum. Ég gæti auðveldlega haldið áfram að reyna að bæta samfélagið, laus við frjálsa viljann. Ef ég stæði frammi fyrir spurningu eins og “á að leyfa transfitur eða banna?” þá myndi ég eflaust bara skoða einhverjar rannsóknir og komast að því hvað væri best fyrir heildina.
En hugmyndin um að “fólk ráði sig sjálft” er kjarnapunktur í minni hugmyndafræði. Þegar einhver segir: “Ég vil ekki að RÚV sýni ofbeldismyndir á kvöldin,” þá svara ég því oftast með: “Ekki horfa, þú ræður þér sjálf”. Ég trúi því mjög sterkt, en samt veit ég eiginlega að það er rangt. Og mér finnst það erfitt.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021