Ég mun aldrei getað ímyndað mér hvernig það er að búa á Gazasvæðinu. Sem barn man ég eftir reglulegum fréttum af átökum á Gaza og Vesturbakkanum en á friðsæla Íslandi er erfitt að setja sig í spor innilokaðs ungs saklauss fólks sem býr við stöðuga frelsissviptingu. Gaza er einungis um 30% stærra landsvæði en Reykjavík en þó búa þar um 1.8 milljón manns sem gerir svæðið afar þéttbýlt. Meðalaldur íbúa á Gaza er 18 ára og meira en 40% íbúa eru yngri en 14 ára*. Árið 1948 var Ísraelsríki stofnað með miklum stuðningi úr vesturheimi og frá 1967 hefur Ísraelsríki sýnt eindæma mannvonsku og kúgun með því að halda varnarlausum Palestínumönnum í fangelsi með yfirtöku á landsvæðum Palestínumanna. Hernámið átti að vera tímabundið en hefur nú staðið yfir í 47 ár. Íbúar Gaza eiga sér enga undankomuleið.
Á miðvikudaginn síðastliðinn söfnuðust um þrjú þúsund Íslendingar saman á Ingólfstorgi til þess að sýna íbúum á Gaza samstöðu. Þá höfðu um 700 manns látist frá því að núverandi átök hófust og til að sýna hverri einustu manneskju sem látist hefur á Gaza undanfarið virðingu, var lagður blómsveigur að stjórnarráðinu með nöfnum látinna og í lok samstöðufundarins lögðust 700 Íslendingar í grasið á Arnarhóli. Ég er stolt af að hafa verið þar á meðal.
Á örfáum dögum hefur tala látinna hækkað talsvert og eru nú yfir þúsund látnir á Gazasvæðinu, meirihlutinn óbreyttir borgarar. Á meðan hafa um 50 Ísraelar látið lífið og er langstærstur hluti þeirra hermenn. Það hlýtur því að teljast augljóst hver það er sem er að kúga hvern.
Við getum sýnt samstöðu með Palestínu með ýmsum hætti og beitt þrýstingi á okkar stjórnvöld og alþjóðleg að taka afstöðu gegn hernaðaraðgerðum Ísraelshers á Gaza. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda hafa verið í rétta átt en við þurfum að vera harðari. Meðvirknin með Ísraelsríki þarf að linna og við eigum að vera partur þar af. Við þurfum ekki að hatast við Ísrael en við getum þrýst á stjórnvöld hvort sem er með viðskiptabanni, slitum á stjórnmálasamstarfi, kaupa ekki vörur frá Ísrael, mæta á samstöðufundi með Palestínu, gefið í neyðarsjóði svo dæmi séu nefnd. Við getum öll lagt okkar af mörkum. Stöðvum blóðbaðið á Gaza!
*CIA The World Factbook – https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/geos/gz.html
- Orðum fylgir ábyrgð - 22. apríl 2015
- The Pain of Paying - 9. febrúar 2015
- 105 er nýi 101 - 20. október 2014