Við þekkjum öll þá yfirgengilega góðu tilfinningu sem fylgir því þegar hitnar í veðri og sól skín á klakann. Við fyllumst af von og gleði, miðbærinn verður eins og Ramblan og hvert sem litið er, er eins og Reykvíkingum hafi fjölgað um helming. Austurvöllur í síðdegissól með hvítvínsglas og góðum félagsskap er besta skemmtun sem hægt er að hugsa sér. Það sama á vitanlega við um útilegur, gönguferðir og yfir höfuð alla útiveru hvar sem er á landinu. Ef veðrið er gott er Ísland himnaríki á jörð.
En að sama skapi er Ísland í vondu veðri helvíti á jörð. Hefur þú labbað frá bílastæðinu á Dettifossi að fossinum í 12 m/s og beljandi rigningu? Lágmarksathafnir eins og það að anda verða að áreynslu og ef börn eru með í för eru allir farnir að grenja af pirringi og hræðslu áður en komið er að fossinum (þ.e.a.s. ef þau voru ekki bara skilin eftir í bílnum meðan foreldrarnir börðust við náttúruöflin). Tjald er eiginlega út úr myndinni, stuttar gönguferðir verða að kvöl og pínu og allir verða rennblautir og andstuttir á örskotsstundu. Ekki láta þig dreyma um hvalaskoðun – ef báturinn fer yfir höfuð út – þá koma allir ælandi til baka, þó efalaust þakklátir fyrir að vera á lífi.
Við sem hér búum erum hins vegar ekkert ein um að upplifa þessar tilfinningar. Erlendu ferðamennirnir okkar eru jú bara fólk af holdi og blóði rétt eins og við og börnin þeirra þola rok og rigningu alveg jafn illa og okkar börn, eða jafnvel verr.
Frá 2000 til 2012 voru sumrin á Íslandi draumi líkust. Það má geta sér til um að ferðamennirnir sem þá komu heim úr sumarfríi á Íslandi hafi mælt með landi og þjóð við alla vini sína, dásamað bjartar sumarnætur, stórbrotið landslagið (sem ekki var hulið þoku) og hina gríðarlega hamingjusömu Íslendinga sem sjá mátti á hverju horni. Og það er nú með þennan business eins og annan að gott orðspor er besta auglýsingin.
Sumarið 2013 og það sem af er þessu sumri er hins vegar ekki efni í neina sumarrómantík. Spánverjarnir sem ég hitti í fyrra og farið höfðu hringinn með tvö börn sögðu einfaldlega að þetta hefði verið hryllingur. Þau munu ekki mæla með því við neinn að ferðast um Ísland, nema viðkomandi séu haldinn einhvers konar sjálfspíningarhvöt.
Veðurundrið sem blessaði okkur framan af öldinni á sennilega miklu stærri þátt í fjölgun ferðamanna en auglýsingaherferðin Inspired by Iceland.
Það skyldi því aldrei vera að að hinn skjóti frami hinnar nýkrýndu mikilvægustu atvinnugreinar landsins sé beintengdur við fjölda sólarstunda? Rétt eins og hamingja íslensku þjóðarinnar.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020