Um þessar mundir keppast erlendir milljónamæringar við það að elta tuðru og koma henni í netið hver hjá öðrum. Mér skilst að Íslendingar séu ekki einu sinni að keppa, nema ef frá er talin einn sem virðist verma varamannabekk Bandaríkjanna – með stolti. Jafnvel þótt við séum ekki að keppa má lesa á stöðuuppfærslum á Facebook að þetta sé himnaríki á jörð. Menn virðast jafnvel hætta snemma í vinnu til að gera sig klára fyrir glápið.
Fyrir okkur fýlupúkana væri þetta tímabil þolanlegt, ef þetta væru bara þessar 90 mínútur sem hver leikur tekur. Við getum þá bara gert eitthvað annað eins og að hreyfa okkur í alvöru eða bara skipta um stöð á sjónvarpinu. En það væri of gott til að vera satt, við eigum enga möguleika að losna. Þjóðfélagið er gegnsýrt af þessu. Allir fjölmiðlar eru uppfullir af umfjöllun um keppnina, fátt annað rætt manna á milli og samfélagsmiðlarnir loga. Í alvöru, hvað er hægt að ræða mikið um eitt nart í öxl? Það var aumi sálfræðingurinn eða geðlæknirinn sem ekki mætti í viðtal í fjölmiðlum. Svona að ógleymdum öllum sparkspekingum, sem endanlega töpuðu sér.
Íþróttaáhugaleysinginn getur helst ekki farið út af heimilinu eða mætt í partý um þessar mundir. Það virðist eiga vera hægt að ganga út frá því að fullvaxta karlmaður sé upplýstur um gang mála á HM. Þau eru ekki fá skiptin sem íþróttaáhugaleysinginn hefur brosað og nikkað eins og hann sé á kafi í vitleysunni og þekki gang mála eins og lófann á sér. Helst er bara að vona að það komi engar spurningar eða að ætlast sé til þátttöku í umræðunni. Svona „fake it until you make it“ aðgerð. Áhugaleysið má alls ekki koma í ljós. Það væri allt eins hægt að tilkynna um bráðsmitandi holdsveiki. Að eiga ekki uppáhaldslið í ensku deildinni er eins og að hafa ekki verið í kórnum í Menntaskólanum. Að hafa ekki skoðun á því hvort einhver hafi þóst detta í vítateig eða hvort það sé hrein illmennska að narta í annan leikmann er klár leið til glötunar.
Það er samt ekki eins og ég hafi ekki reynt. Á asnaeyrunum var ég dregin á leik Barcelona að keppa stórlið. Myndir af mér benda ekki til þess að mér hafi þótt þetta vera skemmtun, ekki frekar en minningin. Á meðan ég bjó í Svíþjóð gerðist ég þjóðlegur og skellti mér á landsleik Íslands við Danmörku, bara til að horfa á Ísland rasskellt í versta tapi síðan 14-2 leikurinn – ég gat svo sem ekki kvartað undan skorti á mörkum. Bankarnir voru svo duglegir að bjóða á landsleiki fyrir hrun, en skemmtatriðin á undan voru alltaf betri en 90 mínúturna kvalræðið á meðan á leiknum stóð.
Það er heldur ekki eins og þessir íþróttafréttamenn séu að hjálpa til við að auka á áhuga fólks. Lýsing íslensku lýsendanna virðist ganga að því sem gefnu að áhorfendur séu hálfvitar. Lýsandinn sér nákvæmlega það sama og ég, en eina viðbótin virðist vera að öskra það nógu hátt sem ber fyrir augum og fara með einhverja staðlausa stafi eða hótfyndni. Ég er ekki þroskaheftur, heyrnalaus og sé ágætlega á sjónvarpið. Fyrst menn eru að lýsa þessu á annað borð þá þætti mér vænt um að vera upplýstur frekar en að öskra á mig það sem ég hvort sem sé. Ég hef það á tilfinningunni að öskrin hafi stigmagnast með árunum – eða kannski er ég bara að eldast. Hvort sem þá eykur þetta ekki skemmtanagildi leiksins.
Ég held að það sé alveg útséð með áhuga minn á íþróttum. Sama hvað ég geri, þá mun hann aldrei koma. Þá er bara að sætta sig við og vona að þetta taki fljótt af, reynslan kennt manni að maður losnar aldrei. Ef það er ekki HM þá er alveg öruggt að menn finna sér bara eitthvað annað til að hlaupa á eftir eða kasta. Þessu líkur aldrei.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020