Ég sit og smelli tölum í dálka, krota einhverjar niður á blað. Skoða skilmála á heimasíðum lánastofnana. Skoða hvað hús kosta. Skoða hvað ég get verið lengi að safna fyrir einu slíku. Set dæmið upp. Reiknireikn.
Ég les lögin. Velti því fyrir mér hvað ég eigi að gera með þennan viðbótarlífeyrissparnað. Og ég gríp mig alltaf að einu. Ég horfi á útreikningana og hugsa svo: “En hvað er líklegt að gerist næst þegar stór hópur fólks lendir vandræðum? Verður þá gott að eiga mikið í lífeyrissparnað, eða lítið? Hvað er líklegt að pólitíkusarnir geri?”
Ég er ekki brjálaður. Ég ætla ekki að tárast yfir því að enginn hafi gefið mér jafnmikinn pening og öðrum. Ef ég sæti á þingi fyrir einhvern þessara flokka þá gæti ég meira segja drukkið tvo Red Bull fyrir útvarpsviðtal og réttlætt þetta einhvern veginn svona: “Hægrimenn vilja að fólk fái svigrúm til að gera stöff. Það var ekki gott að láta hálfa þjóð gráta í kjöltu sér með stjarnfræðilega neikvæða eiginfjárstöðu. Nú getur fólk andað.”
Ég held ég jafnvel trúi því örlítið. En mér líður samt undarlega. Því ég stend mig að því að skipuleggja eigin fjármál með hliðsjón af því hvernig ég held að pólitíkin verði. “Jæja, ef menn eiga að nota viðbótarlífeyrissparnaðinn í að kaupa sér hús eða borga af láni þá verð ég víst að gera það líka. Ekki vil ég missa af skattaaflættinum. Og það sem meira er: Ekki vil ég verða útundan næst þegar menn skítmixa einhverjum hóp. Í þetta skipti geri ég bara eins og hinir. Í fjöldanum mun ég finna skjól.”
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021