Pollapönk hafði varla sleppt orðinu á sviðinu í Kaupmannahöfn þegar í ljós kom að boðskapur þeirra um fordómaleysi hafði svo sannarlega ekki náð til allra landsmanna. Þegar rétt rúm vika var til kosninga ákvað oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík að lýsa þeirri skoðun sinni að ekki ætti að úthluta lóðum undir mosku á meðan hér væri þjóðkirkja.
Sem betur fer áttuðu flestir sig á því að við ummælum af þessu tagi þyrfti að bregðast. Fáir brugðust reyndar hraðar við en oddvitinn sjálfur, sem túlkaði ummæli sín þannig að í þeim hefði falist ákall um íbúalýðræði og sagðist síðar vera almennt á móti því að trúfélög fengju úthlutað ókeypis lóðum.
Eftiráskýringar oddvitans dugðu hins vegar skammt og ummæli kvöldið fyrir kjördag um nauðungarhjónabönd tóku af allan vafa um það að ætlunin var að höfða til þeirra sem óttast útlendinga.
Það eru ekki margir sem ákveða að lýsa opinberlega yfir andúð sinni á innflytjendum eða ala á hræðslu við útlendinga. Ýmsir virðast hins vegar telja að hér ríki þöggun um innflytjendamál og að þau þurfi að ræða. Þannig birtist á dögunum ritstjórnargrein þar sem fram kom að almenningur hefði aldrei verið spurður hvort hann sé sáttur við það hversu hratt útlendingum fjölgi á landinu.
Þessi nálgun er bæði röng og mannfjandsamleg og sprettur af nákvæmlega sama meiði og ummæli oddvita Framsóknarflokksins. Það á ekki að nálgast innflytjendur sem vandamál sem þurfi að ræða. Við höfum þegar mótað okkur stefnu sem byggir sem betur fer á því að innflytjendur auðgi samfélagið.
Úrlausnarefnið er okkar megin og snýr að því að taka betur á móti þeim sem hér vilja búa eða leita hér skjóls. Íslendingar sem flytja til Noregs í leit að atvinnutækifærum eða betra lífi þykja sýna sjálfsbjargarviðleitni og dugnað. Við eigum að sjálfsögðu nálgast þá sem hingað koma með sama hætti.
Í kosningunum í gær veðjuðu Framsóknarmenn á það að hjá hluta kjósenda væri jarðvegurinn fyrir hræðsluáróður frjór. Þeir öfluðu sér atkvæða með því að lofa að ganga á réttindi minnihlutahóps. Önnur framboð i Reykjavík ákváðu til allrar hamingju að stökkva ekki á vagninn, þrátt fyrir að horfa jafnvel fram á sögulegt tap. Þau áttuðu sig á því að vinsældir eru skammvinnar en skömmin er ævarandi.
- Burtu með fordóma - 1. júní 2014
- Rétturinn til þess að ljúga - 23. febrúar 2012
- Markmið sérstaks saksóknara - 31. janúar 2012