Með sveitastjórnarkosningar á næsta leyti velti ég fyrir mér hvað manneskja eins og ég sem á engin börn, enga fasteign, engan bíl, er ekki eldri borgari og nýti í raun mjög litla þjónustu á vegum míns sveitafélags Reykjavíkurborgar, eigi að kjósa í kosningunum? Það er yfirleitt ekki mikið rætt eða gert fyrir okkur sem föllum ekki inn í þessi týpísku hólf. Því fyrir manneskju sem vill hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi er mikilvægt að velta fyrir sér hvað skiptir í raun máli fyrir mig í sveitastjórnarmálum.
Ég bý í Reykjavík, ég vil helst búa hér áfram, ég vil að borgin mín sé falleg og að ég þurfi að borga sem minnstu skatta til hennar. Það eru mínar kröfur, ekki mikið meira en það. Það þýðir að ég mun kjósa út frá þremur meginatriðum; húsnæðismálum, umhirðu borgar og forgangsröðun í fjármálum.
#hvareribudinmin
Að vera í námi og búa ein á námslánum er ekki einfalt eða öllu heldur ekki hægt. Þess vegna tók ég boði móður minnar að koma tímabundið heim aftur. En nú fer að líða að því að ég vilji flytja á ný og búa ein, helst í miðbænum því þar búa flestir vinir mínir og þar gæti ég labbað í flest það sem ég sæki mest í. En frá því ég flutti úr leiguíbúð fyrir tæpu hálfu ári síðan hefur leiguverðið hækkað um allt að 50%.
Það að borga 140.000 krónur á mánuði fyrir litla kytru er auðvitað sturlun á einhverju stigi. En hvað útskýrir þetta mikla verð? Ljóst er að margir vilja búa í miðbænum, en sökum þess að það hefur verið algjör lóðaskortur í Reykjavík á síðustu árum og mjög óhagstætt sökum lóða- og gatnagerðargjalda að byggja smærri íbúðir hefur eftirspurnin orðin mun meiri en framboðið og því geta leigusalar leyft sér að rukka svimandi hátt verð. Eitthvað þarf að gera til að stemma stigu við þessari þróun.
Það er ekki hlutverk borgarinnar að byggja íbúð fyrir mig, ég vil bara geta leigt íbúð á frjálsum markaði en það er aftur á móti hlutverk borgarinnar að gera einkaaðilum kleift að byggja íbúðir á hagstæðu verði. Hún gerir það með því að bjóða upp á fjölbreyttar lóðir víðsvegar um Reykjavík, láta lóða- og gatnagerðargjöldin fara eftir stærð íbúða og byggja upp góða þjónustu í hverfunum sem á að byggja í svo það verði fýsilegt fyrir byggingaraðila að byggja. Svo einfalt er það.
#moneyinmypocket
Í Reykjavík er útsvarið í hámarki, það er ekki hægt að hækka útsvarið nema að Alþingi hækki hámarkið. Reykjavík er langstærsta sveitarfélagið og ætti að geta nýtt stærðarhagkvæmni sína miklu betur, en það hefur því miður ekki verið gert. Nýr meirihluti ætti að einblína á það að forgangsraða í þágu grunnþjónustu, skera í burtu fituna og nýta útboð enn frekar til að lækka rekstrarkostnað. Ég held að flestir geti sammælst um að skattalækkanir eru besta kjarabótin fyrir alla, eitt af því fáa sem hefur bein áhrif á alla í einni aðgerð. Mig líka.
#dasamlegareykjavik
Í minni dásamlegu Reykjavík bý ég í göngufæri við vinnuna mína, borgin er hrein og vel slegin og hún er vel rekin, ég veit að peningarnir mínir eru að koma að
góðu gagni. Í þannig borg vil ég búa.
Ég veit hvað ég ætla að kjósa 31.maí. Ef þú ert eins og ég; barnlaus, íbúðalaus og bíllaus þá er bara einn flokkur sem hefur lofað að lækka skatta, fjölga íbúðum og taka til í borginni. Ég ætla að kjósa mína hugmynd að dásamlegri Reykjavík og því kýs ég Sjálfstæðisflokkinn.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021