Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, gerði vel þegar hann varpaði útí hafsauga tillögum embættismanna í menntamálaráðuneytinu um nokkurs konar karakterumsögn sem kennarar skyldu veita stúdentum við brautskráningu. Hitt er öllu lakara hjá Illuga að gera sér ferð á Ólympíuleikana í Rússlandi í þessum mánuði.
Í bréfi sem Atli Harðarson, skólameistari FVA, sendi ráðuneytinu baðst hann undan því að þurfa að veita nemendum skólans slíka umsögn við brautskráningu. Í kjölfarið var málið tekið upp af hálfu ráðherra og fallið frá þessum fráleitu tillögum.
Um þetta var fjallað ítarlega í þættinum Einu mennirnir með viti í Deigluradíóinu um liðna helgi. Áttu kennarar og stjórnendur skóla til að mynda að veita umsögn um hvort stúdentsefni gæti orðið ábyrgur borgari í lýðræðissamfélagi og hvort hann bæri hag umhverfisins fyrir brjósti í alþjóðlegu samhengi. Þá átti að veita umsögn um hvort stúdentsefni teldist vera sjálfbjarga í daglegu lífi og hvort hann tæki ábyrga afstöðu til eigin heilsu, líkamlegrar sem andlegrar.
Til allrar hamingju var þetta slegið út af borðinu af ráðherra og áfram verða það því einkunnir stúdentsefna og frammistaða þeirra í námi og prófum sem ræður innihaldi prófskírteina.
Einu mennirnir með viti fjölluðu einnig um ráðgerða för ráðherra á Ólympíuleikana í Rússlandi og hlaut hann ekki háa einkunn fyrir þann ráðahag. Því hefur verið haldið fram að ekki eigi blanda saman íþróttum og stjórnmálum og þess vegna eigi ráðherra ekki að sniðganga leikana.
Þetta er í raun bæði útúrsnúningur og mótsögn. Auðvitað eiga íþróttamenn að sækja leikana og það á ekki að blanda þeirra þátttöku í stjórnmálin. Það var til að mynda gert þegur Vesturveldin sendu enga íþróttamenn á leikana í Moskvu 1980. Varsjárbandalagsríkin svöruðu svo í sömu mynt fjórum árum síðar þegar leikarnir voru haldnir í Los Angeles.
Það felst engin sniðganga í því að ráðamenn ríkja sæki ekki Ólympíuleika. Hins vegar má segja að gestgjöfum sé sýndur sérstakur heiður með því að ráðamenn annarra ríkja geri sér ferð á leikana. Er tilefni til þess?
Þátttaka íþróttafólks og almennings í Ólympíuleikum, jafnvel þegar gestgjafar eru alræðissinnuð illmenni, er jákvæð. Hún opnar líklega fleiri dyr en hún lokar, svipað og fríverslun. Atbeini stjórnmálamanna er hins vegar hvorki nauðsynlegur né æskilegur undir þessum kringumstæðum.
Þess vegna á Illugi Gunnarsson að láta vera að gera sér ferð til Rússlands og sýna með því sama myndarskap og sjálfstæði og hann sýndi með því að slá út af borðinu hinar fráleitu hugmyndir um persónulega karakterumsögn stúdentsefna við brautskráningu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021