Í kirkjusögunni er kjör Frans páfa merkasti atburður þessa árs að flestra mati. Katólska kirkjan er lang stærsta kirkjudeildin í almennri kristni og það skiptir máli hver situr í stóli páfa og hvaða erindi berst þaðan til heimbyggðarinnar.
Benedikt páfi var íhaldssamur og ekki var breytinga að vænta frá honum en þó braut hann í blað þegar hann ákvað að stíga niður af páfastóli og draga sig í hlé. Það hafði ekki gerst í meira en 600 ár. Benedikt var orðinn 85 ára gamall og var orðinn þreyttur og ellimóður. Á valdatíma hans í páfastóli var kirkjan oft í kröppum sjó og tíðarandinn um flest andstæður skoðunum hans.
Hvítur reykur úr strompi Vatikansins gaf merki um að kardinálarnir hefðu valið nýjan páfa. Þegar nafn hans var tilkynnt veltu margir því fyrir sér hver hann væri og hvers mætti vænta af honum.
En nú vitum við öll hver hann er. Frans páfi hefur stimplað sig rækilega inn í samtímasöguna og það með jákvæðum hætti að flestra mati. Það kveður við nýjan tón úr Páfagarði.
Það vakti athygli þegar hann þvoði fætur múslima og kvennfanga. Sá gjörningur merkir að þó að páfinn sé höfuð kirkjunnar þá er hann um leið allra þjónn. Og hann gerði ekki mannamun og undirstrikaði með þessum gjörningi virðingu sína fyrir náunganum.
Það vakti ekki síður athygli þegar hann kvað upp úr með að afstöðu sína til samkynhneigðra með því að segja: Hver er ég að dæma þá. Hann hefur verið afdráttarlaus í gangrýni sinni á ójöfnuð og fátækt í heiminum og talað með virðingu og skilningi um þá sem eru annarrar trúar eða trúlausir.
Þetta varð til þess að Frans páfi er maður ársins hjá tímaritinu Time.
Guð láti gott á vita.
Ég heyri stundum í útvarpi að sumum sem þangað hringja og þar stjórna þyki íslenska þjóðkirkjan elta tíðarandann og hverfa frá gömlum kenningum kirkjunnar. Þá er verið að gagnrýna afstöðu og áhuga íslensku þjóðkirkjunnar á málefnum samkynhneigðra og stöðu kvenna og pólitískri rétthugsun (sem er mikið skammaryrði hjá mörgum) og eflaust flýtur fleira með.
En ég segi fyrir mig – guði sé lof fyrir það að þjóðkirkjan er frjálslynd og stendur með mannréttindum og þjóðfélagslegu réttlæti. Að hún þrjóskast ekki við í afturhaldi og úreltum skoðunum. Lífið er nú einu sinni þannig að allt breytist og það felur dauðann í sér að staðna og halda því fram sem samtíminn er horfinn frá.
Í veröld þar sem öfgar og hávaði hafa mest fréttagildi er ástæða til að halda á lofti nafni ungu stúlkunnar, Malala Yousafzai, sem særðist lífshættulega í árás Talibana. Hún vakti bæði athygli og aðdáun fyrir framgöngu sína þegar hún undirstrikaði þá hlið islam sem leggur áherslu á manngæsku og frið. Þrátt fyrir það ofbeldi sem hún varð fyrir þá hafnar hún öllu ofbeldi og hvetur fólk til að tala saman.
Það er boðskapur sem er til eftirbreytni. Við eigum að tala saman og bera virðingu fyrir öðrum.
Erindi Jesú var að sérhver fái að lifa í samræmi við það hver hann er. Að við komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Það er kjarninn í kristinni trú. Og boðskapur jólanna er einmitt sá að heyra með hjartanu söng englanna um frið á jörðu og að fenginn er sátt – fagni því menn sem bæri.
Og við heyrum líka engilinn segja við hirðana og okkur: Verið óhræddir – verið óhrædd því ég boða yður mikinn fögnuð. Það grunntóninn í boðskap jólanna. Verið óhrædd – aftur mun birta. Guði sé lof fyrir það. Amen og gleðileg jól.
- Jarðnesk trú og/eða himnesk - 23. maí 2021
- Páskadagur árið 2021 - 4. apríl 2021
- Að vesenast á aðventu og jólum - 25. desember 2020