Öll vitum við að hrós er jákvætt og hvetur okkur áfram. Það gleður og veitir aukinn innblástur við þau verkefni sem við tökumst á við hverju sinni. Þeir sem vinna með börnum og þeir sem eru uppalendur eru mögulega alltaf í góðri trú um að hrós þeirra og hvatning geri börnum og unglingum gott. En er það alltaf svo? Er hægt að hrósa vitlaust? Erum við ómeðvitað með hrósi okkar og hvatningu mögulega í einhverjum tilfellum að hræða börn og unglinga frá því að takast á við ný og krefjandi verkefni? Svarið er já.
Fyrir tæpri viku síðan fór pistlahöfundur norður á Akureyri ásamt öðru starfsfólki Grunnskóla Grindavíkur. Hluti þeirrar ferðar var heimsókn í hina ýmsu skóla, þeirra á meðal Giljaskóla. Þar er Jón Baldvin Hannesson skólastjóri. Óhætt er að fullyrða að erindi sem hann flutti hafi veitt okkur sem vinnum með börnum og unglingum daglega, mikinn innblástur enda kom hluti erindisins okkur töluvert á óvart.
Jón Baldvin varpaði fram þeirri spurningu hvort það myndi bæta sjálfstraust og þar með árangur að hrósa fyrir greind. Benti hann á að það væri mjög útbreidd skoðun í samféaginu og að oftar en ekki heyrði hann foreldra ítrekað segja börnum sínum hvað þau væru gáfuð og vel gerð. Eðlilega væri það einlægur vilji foreldra að slíkt hrós myndi auka sjálfstraust barnanna og laða þannig fram ýmsa æskilega eiginleika.
Hið rétta er, að sögn Jóns Baldvins, að í staðinn leiðir slíkt hrós til ótta við að mistakast. Barnið forðist í staðinn að taka áhættu og efast um sjálft sig þegar því mistekst eitthvað. Þetta studdu sjö rannsóknir á mörg hundruð börnum og niðurstöðurnar voru einhverjar þær skýrustu sem Jón Baldvin sagðist hafa séð: Að hrósa börnum fyrir greind skemmir áhugahvöt þeirra og dregur úr árangri.
Hvernig á þá að hrósa börnum og unglingum?
Þetta er sjálfsögð og eðlileg spurning í kjölfar þess sem fram hefur komið. Í erindinu var farið þó nokkuð yfir framkvæmdir rannsóknanna og bent á að greindarvísitala sé t.d. ekki föst tala. Hún getur vel vaxið við ögrandi og krefjandi verkefni en að sama skapi minnkað við litla örvun á heilastarfseminni. Þar af leiðandi sé mikilvægt að senda börnum og unglingum þau skilaboð að þau geti vaxið og dafnað og náð árangri. Til þess þurfi dugnað og þrautseigju umfram einhverja tölu sem segi til um hversu greind við séum.
Við eigum að vekja athygli á og fagna allri þrautseigju sem börn og unglingar sýna. Mikilvægt er að benda á að heilann er hægt að þjálfa eins og vöðva. Hlutverk kennara má ekki vera eingöngu vera að fræða heldur þurfum við að gera nemendur virka, ábyrga, forvitna og leitandi. Við þurfum að gera þá tilbúna að takast á við óöryggi, erfið viðfangsefni, ný sjónarhorn og mistök. Nemendur eru ekki bara þekkingarþegar heldur manneskjur sem eiga alltaf að hafa kost á því að efla hæfni sína til að lifa í flóknum heimi. Slíkt snýst ekki bara um að vita allt sem stendur í bókunum heldur að hafa eiginleika eins og dugnað og þrautseigju til að halda áfram að takast á við ný og spennandi verkefni.
Annar þáttur sem vakti athygli í erindinu var hversu langt fólk hafði náð þrátt fyrir fjölda mistaka. Þar voru eftirfarandi t.d. nefndir:
Tomas Edison sem kennarar sögðu of heimskan til að geta lært. Hann var sagður hafa gert 3.000 „mistök“ við að framleiða fyrstu ljósaperuna. Að lokum fékk hann einkaleyfi.
J. K. Rowling höfundur Harry Potter var blönk einstæð móðir þegar hún fékk hugmyndina í lest frá Manchester til London. Hún skrifaði á kvöldin þegar færi gafst. Fann umboðsmann í annarri tilraun og var hafnað af mörgum útgefendum áður en bók hennar var gefin út.
Abraham Lincoln þótti mjög mislukkaður í viðskiptum og var t.a.m. færður niður um tign í hernum árið 1832. Hann féll á lögmannsprófi sama ár og fékk taugaáfall 1836. Hann féll í þremur kosningum og tapaði varaforsetakosningum árið 1856 og féll svo aftur í þingkosningum tveimur árum síðar. Að lokum náði hann kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1860 og er að mörgum talinn einhver merkasti forseti í sögu þjóðarinnar.
Winston Churchill þótti mjög sjálfstæður og uppreisnargjarn í skóla. Hann var í neðsta bekk í getuskiptum árgangi eða lélegasta hópnum. Hann stamaði og átti erfitt með að tala og þurfti að taka inngöngupróf í herinn þrisvar sinnum. Engu að síður varð hann forsætisráðherra Bretlands árið 1940 og er að mörgum talinn einhver öflugasti ræðumaður fyrr og síðar fyrir þær hvatningaræður sem hann hélt í síðari heimstyrjöldinni og við lok hennar.
Ofantalin dæmi eru aðeins brot af því sem finna má um velgengni fólks sem náðst hefur vegna dugnaðar og þrautseigju.
Mesti árangurinn byggist ekki á því að mistakast aldrei, heldur á því að gefast aldrei upp. -Nelson Mandela
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021