Fyrir tveimur árum voru settar takmarkanir á tjáningarfrelsi sem standast ekki stjórnarskrá. Nú er verið að dæma fólk fyrir að brjóta þær. Undarlegur er húmor þeirra sem sjá það helst í þessu máli að einhver hafi haldið því fram að fullorðið fólk gæti horft á Skoppu og Skrítlu.
Í þessum skelfilegu fjölmiðlalögum, sem Katrín Jakobsdóttir lét semja og flestir utan Sjálfstæðisflokksins samþykktu, er lagt bann við því að birtar séu auglýsingar fyrir og eftir barnaefni. Bara svona. Hjá öllum. Maður hefði haldið að ríkisvaldið sem rekur eigin sjónvarpsstöð gæti alla vega þröngvað þessu heimskulega gildismati sínu upp á þá einu stöð, en látið annað fólk óáreitt. En nei, eitt varð yfir alla ganga.
Nú segir í stjórnarskráni: “Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.”
Undir hvað af þessu gæti bann við að auglýsa Lego-kubba fyrir Stundina okkar fallið? Allsherjarreglu? Öryggi ríkisins? Vernd á heilsu? Siðgæði? Mannorðsvernd? Vernd réttinda annarra? Réttinda til að fá að horfa á sjónvarpsefni án auglýsinga? Réttinda foreldra til að þurfa aldrei að segja “nei” við börnin sín? Það eru ekki réttindi í neinum lagalegum skilningi. Né neinum öðrum skilningi sem gagnlegur getur talist.
Þeir sem vilja banna allt sem fer í taugarnar á þeim, gleyma stundum að þeir banna oft fleira en þeir ætla sér. Það væri ekki bara hægt að hafa jafnmikið barnaefni, bara án auglýsinga. Ástæða þess að menn láta Skoppur og Skrítlur þessa lands búa til jóladagatöl fyrir sig er meðal annars sú að þeir geta selt auglýsingar út á þetta efni. Ef það má ekki nýta barnaefni til að selja auglýsingar þá er minna af auglýsingum selt og minna af barnaefni gert. Það er bara þannig.
Vörn lögmanna 365 miðla var sú að Skoppa og Skrítla væru ekki barnaefni, heldur ætlað “allri fjölskyldunni” eða eitthvað svoleiðis. Ætli stjórnlyndu fólki nær og fjær þyki þetta ekki sérstaklega fyndið: Að fólk skyldi bregðast við fáranlegum lögum með útúrsnúningum, og mistakast. Hahaha! Vissulega má velta því fyrir sér hvers vegna málfrelsivinkillinn hafi ekki verið notaður en líklegast hefði það verið enn síðra til árangurs. Það gerist ekki oft að stjórnvald úrskurðar að lögin sem tilvist þess hvílir á standist ekki stjórnarskrá.
Gott væri að þeir sem urðu fyrir barðinu á þessu rugli kæri þetta til dómstóla og fái þessum ólögum hnekkt. Mun fljótlega væri vissulega ef þingið tæki þessi ruglákvæði einfaldlega út. Það er fráleitt að íslensk lög banni fólki að auglýsa leikföng. „Ég meina, hugsið bara um börnin.“
Höfundur er verktaki hjá 365 miðlum, sem rekur Stöð 2, þar sem umrætt Jóladagatal Skoppu og Skrítlu var sýnt.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021