Þeir sem vilja leyfa rafrettur eru að missa af mikilvægum punkti. Rafrettur líta úr fjarska mjög svipað út og venjulegar rettur. Þannig að: Guð sér ekki muninn og þeir sem þær reykja fara til helvítis eftir sem áður.
Jújú, þær eru minna skaðlegar og jújú, þær geta hjálpað fólki að hætta reykja og jújú ef eitthvað fólk sem reykir myndi fara að reykja rafsígarettur myndi heilsa fólks batna og öll vandamál tengd óbeinum reykingum hverfa. En það er samt ekki hægt að líta fram hjá því að þetta eru sígarettur. Þær heita sígarettur og líta út soldið eins og sígarettur. Við verðum einfaldlega að draga skýr mörk. Til dæmis: Ílangir hvítir hlutir sem fólk setur í munninn á sér eru hættulegir. Börn skilja það.
Einhvern tímann vissi fólk ekki að reykingar voru skaðlegar. Svo gerðu menn rannsóknir á rannsóknir ofan og nú er vitað að reykingar eru drulluskaðlegar. Menn dreifðu þessum boðskap til fólks, sem er óumdeilt gott. Menn fóru að reyna banna fólki að reykja sem er kannski skiljanlegt (út frá “samfélagslegum kostnaði” og öðrum svona sprellorðum) en örugglega ekki óumdeilt. En það hefur samt verið gert. Oft með vísindalega rök að vopni.
Ef menn beita fyrir sér vísindum þegar kemur að því að finna rök fyrir hvers kyns tóbaksbönnum þá geta menn ekki beitt eldheitri trúarorðræðu til að bregðast við því þegar lagt er til að of stífum og vísindalega óréttlætanlegum bönnum verði afleitt. Byggi einhver til sígarettur sem yrðu algerlega skaðlausar þá yrði að leyfa þær án takmarkana. Það myndi ekki þýða að við hefðum “gefist upp”. Markmiðið er væntanlega að fólk lifi lengur, en ekki að það fari ekki til forvarnarhelvítis.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021