Fátækur maður stendur í röð til að fá matargjafir. Fréttamaður er á staðnum og fær að spyrja hann út í stöðu mála.
Fréttamaður: Þú hlýtur að vera í vanda staddur fyrst þú ert kominn hingað í röðina?
Viðmælandi: Já heldur betur. Ég neyðist til þess, þar sem það er ekki nóg til heima og maður þarf að skera niður við sig alveg eins og hægt er, ég hef t.d. ekki farið til læknis lengi, ekki til tannlæknis enn lengur og ekki getað keypt mér ný föt síðan í fyrra einhvern tímann en það bara dugir ekki til og ég kem þess vegna hingað.
Fréttamaður: Skelfilegt ástand alveg hreint. Þú sérð ekkert fram á breytingar?
Viðmælandi: Nei, engan veginn, það er mjög svart útlitið.
Fréttamaður: Og eru miklar skuldir?
Viðmælandi: Já mjög mikið og það er líka mikið áhvílandi á ættingjum mínum, frændi minn t.d. missti fyrirtækið sitt og getur verið að hann missi húsið sitt líka.
Fréttamaður: Já, það var leitt að heyra. En varðandi þig…
Viðmælandi: Reyndar mun það bjargast með frænda minn, því ég veit að ég á von á lottóvinningi núna í lok árs upp á um 300 milljónir sem ég mun nota til að borga skuldir frænda míns.
Fréttamaður: Ha, áttu von á lottóvinningi? Og ætlarðu að nota hann í að hjálpa frænda þínum?
Viðmælandi: Já, ég veit að þessir peningar koma núna, sennilega í nóvember, held að upphæðin sé eitthvað á þessu bili. Málið er bara að frændi minn á bara skilið að ég hjálpi honum, hann lenti þvílíkt illa í því í hruninu – alveg einstakt að geta nýtt tækifærið til að hjálpa svona aðila.
Þessi dæmisaga er vitaskuld tilbúin. En efnislega og með breyttum formerkjum gæti ofangreint spjall allt eins hafa verið við einhvern íslenskan stjórnmálamann núna síðustu vikur eða mánuði. Í viðtölum við stjórnmálamenn um þessar mundir kemur yfirleitt tvennt fram.
Annars vegar að ríkissjóður sé gríðarlega illa settur og lítið fé til, ljóst sé að taka þurfi verulega til í kerfinu og því miður verði bara að taka erfiðar ákvarðanir. Sums staðar verði bara að láta það ganga að 2-3 lögreglumenn séu á vakt á 2-300 km. svæði eða að skurðstofum hér og þar um landið sé lokað.
Hins vegar ætlar ríkissjóður að leiðrétta verðtryggð lán landsmanna. Kostnaðurinn við þá aðgerð liggur að vísu ekki alveg fyrir, kannski 300 milljarðar eða svo en svigrúmið er alveg klárlega til staðar.
Eina stundina er ríkissjóður s.s. aðþrengdur, skuldum vafinn og í tómum vandræðum. Þá næstu á ríkissjóður von á fullt, fullt af peningum frá kröfuhöfunum. Er þetta ekki örugglega alveg sami ríkissjóðurinn?
Staðan er auðvitað ekki svo einsleit að það verði að nýta þetta í skuldaleiðréttingu.
Ríkissjóður mun, ef til kemur, móttaka það fé sem fæst frá kröfuhöfunum, hafa það til ráðstöfunar og er á engan hátt bundinn af því að ráðstafa peningunum í leiðréttingu á verðtryggingu.
Þetta er sami ríkissjóður sem er svo skuldugur að hann borgar um 90 milljarða á ári í vexti og vaxtagjöld en það engu að síður á ekki nota eina krónu af því sem fæst úr viðræðunum við kröfuhafana í að borga niður skuldir.
Þetta er sami ríkissjóður og rekur Landspítalinn sem er svo aðkrepptur að þar vinnur hver starfsmaður á við 3-4. Spítalinn fær ekkert af þessum peningum.
Þetta er sami ríkissjóður og hefur undanfarin ár búið þannig um hnútana að fyrirtæki og skattgreiðendur hafa tekið á sig verulegar hækkanir ár eftir ár í formi skatta og gjalda. En þar er lítið til.
Á dögunum var því fleygt fram að boðaðar aðgerðir í skuldamálum þjóðarinnar yrðu þær róttækustu í sögunni. Reyndar er það svo að afar fáar ríkisstjórnir í mannkynssögunni hafa staðið frammi fyrir því að fá kannski 50-60% af árstekjum ríkissjóðs upp í hendurnar í einni greiðslu. Allt sem gert verður á eftir að þykja róttækt og merkilegt, einfaldlega vegna þess að umfangið er svo gríðarlegt. Hvort sem „svigrúmið“ verður nýtt í skuldaniðurfærslu, samgöngubætur, uppbyggingu skrúðgarða eða í að borga niður skuldir ríkissjóðs, þá yrði viðkomandi aðgerð einstök og róttæk í samanburði við annað í sögunni.
Aðalatriðið er ekki að gera eitthvað sem verður það róttækasta og rosalegasta sem gert hefur verið, heldur að velja þann kost sem er skynsamastur til lengri tíma litið.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021