Ég er Pólverji eins og þú ert að vestan.

Hvað er ég? Hve oft hef ég ekki farið í umræðu þar sem fólk reynir að komast að þessu fyrir mann?

Hvað er ég? Hve oft hef ég ekki farið í umræðu þar sem fólk reynir að komast að þessu fyrir mann?

Ég vil samt vera skýr. Mér er alls ekki illa við slíkar umræður, enda finnst mér, líkt og flestum, ótrúlega gaman að tala um sjálfan mig. En þetta byrjar á því að fólk spyr mig einfaldlega hvaðan ég sé. Ég segist vera fæddur í Póllandi. (Pólland 1 – Ísland 0). Þá spyr fólk mig hvenær ég hafi flutt til Íslands. Svarið er “átta ára”. (Áfram 1 – 0, ekki nógu afgerandi aldur). Svo spyr fólk mig hvort báðir foreldrar mínir séu pólskir. Þau eru það bæði (2 – 0 fyrir Pólland.) Við bætist að það var töluð pólska heima hjá mér (3 – 0).

En þá byrjar Ísland að raða inn mörkum. Fyrst segja sumir: “Það heyrist ekki neitt að þú sért ekki Íslendingur,” (3-1). Og svo er spurt hvort ég líti meira á mig sem Íslending eða Pólverja. Og þá fer ég stundum eins og köttur í kringum heitan graut, væli út af spurningunni, en kem því út á endanum að ég sé líklegast meiri Íslendingur þannig lagað (3 – 2). Og þá er boltinn sóttur í markið farið aftur í sókn. Ísland jafnar þá oft me einhverju eins og “Þú ert nú eiginlega alveg 100%” Íslendingur, fyrir mér, varstu ekki í MR og allt?”. (3-3, orðið jafnt).

Og eiginlega er það alveg rétt. Ég var fenginn til að skrifa stjórnarskrártillögu fyrir Ísland (4-3 fyrir Ísland) og skrifa vikulega í stærsta blað Íslands um íslensk þjóðfélagsmálefni (5-3). Pólland maldar stundum í móinn með því að benda á að ég hef búið í Póllandi nýlega (5-4) og tali meira að segja pólsku við börnin mín (5-5 jafnt aftur). Þá vill viðmælandinn ofast fá botn í þetta og spyr: Með hverjum heldurðu í handbolta/fótbolta?. Ég svara fyrst hinu augljósa að ég haldi með því liði sem spilar hverju sinni. En þá er bara spurt:

“En þegar Pólland og Ísland spila mætast í handbolta?”

“…”

“…”

“Íslandi.”

(6-5)

Til að summera þetta upp. Ég er líklega, á margan hátt álíka mikill Pólverji og margir Reykvíkingar sem segjast vera “að vestan”, “að norðan” eða “úr Eyjum”. Ég samsama mig einhverju svæði. Ég á þar fjölskyldu. Mér er annt um að þar gangi allt vel. Ég fer þangað oft á sumrin og mig dreymir um að flytja þangað, sérstaklega þegar ég er drukkinn. Þó ég viti stundum ekki alveg hvað ég ætti að vera að gera þar.

Í Bandaríkjunum segjast menn gjarnar vera “einhverslenskir” Bandaríkjamenn. Mjög margir Bandaríkjamenn eru pólskir, ítalskir, eða kínverskir en eru samt bara ógeðslega miklir Bandaríkjamenn. Kannski verður þetta svona á Íslandi einhvern tímann. En kannski mun fólk ekki sleppa við það að vera krafið um það að “þurfa velja” í bráð. Af ýmsum ástæðum höndla Norðurlandabúar fjölhyggju örlítið verr en Bandaríkjamenn. En meira um það síðar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.