Eins og stór hluti Íslendinga stundaði ég knattspyrnu um skeið í æsku. Ég var fljótur að hlaupa uppi menn sem með kúnstum og klækjum tókst að komast framhjá mér þar sem ég gætti svæðis míns í stöðu vinstri bakvarðar hjá Knattspyrnufélaginu Tý.
Þetta var mitt eina hlutverk. Að passa að menn færu ekki framhjá mér og hlaupa þá strax uppi ef það klikkaði.
Þar sem ég var sprettharður var ég ágætur í þessu. Enda var þetta, eins og ég var rétt að segja, mitt eina hlutverk í liðinu.
Svo það fari ekki á milli mála. Það var ekki ætlast til neins annars af mér í ellefu manna liði en að passa upp á að þeir andstæðingar sem kæmu upp hægri kantinn kæmust ekki alla leið upp völlinn. Jú. Það var reyndar eitt annað sem ætlast var til að mér. Það var ætlast til þess að ég gerði ekki annað en nákvæmlega það sem ætlast var til að mér. Það var semsagt bara þetta tvennt.
Sumir vinstri bakverðir hafa fleiri hlutverk. Ég tók til dæmis eftir því að liðsfélagar Brasilíumannsins Roberto Carlos sendu oft boltann viljandi til hans. Hann fékk líka að skjóta úr aukaspyrnum og taka innköst. Og Andreas Brehme var líka vinstri bakvörður – hann fékk að taka vítið sem innsiglaði sigur á HM.
Það var ekki ætlast til neins þess háttar af mér.
Það var heldur ekki mjög oft sent á mig.
Ef val unglingalandsliðsmannanna, félaga minna í vörninni, snérist um að rúlla boltanum rólega yfir á vinstri vænginn til mín eða negla honum eins langt frá marki og þeir gátu, þar sem það var algjört happaglapp hvort samherji eða mótherji tæki hann, þá þurftu þeir ekki að hugsa sig tvisvar um.
Að senda boltann viljandi á mig hefði beinlínis grafið undan öllu leikskipulaginu. Ég hefði að öllum líkindum annað hvort sent hann á andstæðinginn eða hlaupið stefnulaust með hann þangað til andstæðingur tæki hann af mér. Þar að auki hefði ég verið búinn að koma sjálfum mér í vonlausa aðstöðu til þess að sinna því eina verkefni sem mér var treyst fyrir í liðinu – að taka á móti þegar andstæðingarnir legðu næst af stað upp sinn hægri kant. Og það var – eins og fram hefur komið – eina hlutverk mitt í liðinu.
Það er því óhætt að segja að ég sé einn af þeim sem Knattspyrnusamband Íslands hefur alið upp og fjárfest í.
Mér er alveg sama.
Ég á mig sjálfur – að minnsta kosti í knattspyrnulegu tilliti.
Ef Jürgen Klinsman telur sig hafa not fyrir 37 ára gamlan mann sem fyrir rúmlega tuttugu árum gat stöðvað nánast allar árásir upp hægri kantinn þá getur Lars Lagerbäck étið það sem úti frýs – og líka KSÍ. Start spreading the news! Ég gef hér með kost á mér í bandaríska knattspyrnulandsliðið.
Hins vegar, ef hann vill líka mann sem getur tekið á móti boltanum, rakið hann, sent hann og skotið á mark – þá bendi ég honum á samlanda minn Aron. Það má líta á það sem svo að saman bjóðum við upp á ansi góðan pakka.
Hann á sig líka sjálfur.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021