„Ég er að fara upp á hauga, viltu ekki koma með mér?“
Það er misjafnt frá degi til dags hvers maður minnist úr sinni barnæsku. Eftir að hafa náð þeim áfanga að vera kominn fram yfir helminginn af ætlaðri meðalævi íslenskra karlmanna, hef ég í sífellt ríkari mæli fundið leiðsögn í æskuminningum vegna álitamála og viðfangsefna sem við er að kljást nú á dögum.
Á Akranesi æsku minnar voru umhverfismál ekki í brennidepli, í það minnsta hétu þau það ekki þá. Öskuhaugum bæjarins hafði verið komið fyrir við rætur Akrafjalls, við Berjadalsá, í skjóli gróinna hamraveggja, með útsýni niðureftir skaganum og yfir á Snæfellsnes til vesturs.
Öskuhaugar. Nafnið sjálft er óþekkt kynslóð sem nú fyllir menntaskóla landsins. En öskuhaugar Akranesbæjar á 8. og 9. áratugnum voru alvöru. Allt drasl sem til féll á Skaganum var brennt á haugunum. Allt saman. Í einum stórum haug – öskuhaug.
Afi heitinn átti oft erindi á haugana. Hann gerði út og í þeim rekstri féll til mikið drasl. Það þurfti að brenna á haugunum. Við fórum oft saman og ég fékk að hjálpa honum að henda drasli á snarkandi öskuhauginn. Í minningunni er þessi staður einna líkastur vígvelli. Sviðin jörð, sárindi í augum og hálsi eftir stutta viðveru, blár reykur eða móða yfir öllu. Menn á stórvirkum vélum að róta í glóandi haugnum, einbeittir og annars hugar í senn.
Samfélag þess tíma þurfti að forgangsraða hlutum. Snyrtimennska í sorphirðu var neðarlega á listanum. Þá var ekki til umhverfisráðuneyti, umhverfisnefnd Alþingis, Umhverfisstofnun eða neitt í þá veru. Samfélag þess tíma hafði öðrum hnöppum að hneppa. Afi hafði áhyggjur af því að ekki fiskaðist, að ekki yrði hægt að greiða mönnunum laun og það kæmi sér mjög illa fyrir fjölskyldur þeirra, að greiðslur kæmu fyrir skreiðina sem fór til Nígeríu um haustið, að bankinn framlengdi fyrirgreiðsluna þannig að hægt yrði að kaupa olíu á bátinn. Ekki hvort skaði væri unninn með því að brenna plast, netadræsur og pappír á opnu báli á öskuhaugunum fyrir ofan Garða.
En af hverju fór samfélagið að hafa áhyggjur af því að drasl væri brennt á haugum? Við því er auðvitað mjög einfalt svar: af því að það fór að hafa efni á því að hafa slíkar áhyggjur.
Það væri ekki úr vegi að hugleiða í dag hvort við höfum efni á því að hafa allar þær samfélagslegu áhyggjur sem við höfum og ætlumst til að verða leystar með framlögum úr skuldugum ríkissjóði.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021