Það er afgreiðslukona í Bónus í Kringlunni sem raðar alltaf í poka fyrir mig. Svona eins og gert er í Ameríku. Hún leggur sig líka fram við að tala við útlendinga á ensku. Hún býður alltaf góðan daginn og kveður alltaf líka. Ég veit ekki hvort hún sé alltaf glöð, en hún brosir allavega þegar viðskiptavinir eru nálægt.
Einhvern veginn hefur þessi afgreiðslukona ákveðið að leggja á sig aukakrók til að láta manni líða betur. Því manni líður sannarlega betur ef maður lætur einhvern hafa pening og finnst að einhver kunni að meta það. Ég segi ekki að ég vísvitandi raði mig í röðina á kassann sem hún afgreiðir, maður vill ekki vera krípí. En ég er alltaf glaður ef það lendir þannig.
Kannski er hluti af ástæðu þess að fólk endist ekki lengi í afgreiðslustörfum að menn haldi að það kunni enginn að meta störf þess og að eigendur verslana átti sig ekki nógu vel á hve miklu góður afgreiðslumaður skila í kassann. Þess vegna ætla ég að óska öllu afgreiðslufólki til hamingju með daginn. Og þá sérstaklega þessari vingjarnlegu konu í Bónus í Kringlunni. Sem raðar svona fallega í poka fyrir mig.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021