Allar kosningar hafa sín „lykilmál“, þ.e. eitthvert málefni sem fá mesta athygli og umfjöllun hverju sinni og er því líklegt til árangurs að fjalla um. Þetta er oftar en ekki kannað ofan í kjölinn í aðdraganda kosninga og reynt að komast að því hvað brennur á fólki í það skiptið.
Fyrir þingkosningarnar 2007 vissu Íslendingar almennt ekki lengur aura sinna tal. Þetta endurspeglaðist í lykilmálum þeirra baráttu, sem voru á þá leið að gera betur fyrir eldri borgara og hlúa að umhverfinu, „græna“ hagkerfinu og kolefnisjöfnun. Dæmigerður frambjóðandi á leið á framboðsfund vorið 2007 var að rembast við að muna hvort flokkurinn hans boðaði 15% eða 20% minni losun á hinni eða þessari lofttegundinni fyrir 2015 eða 2020 og hve mikið ætti að hækka ellilífeyrinn. Og svo kepptust menn auðvitað um að mæra uppgang íslensks atvinnulífs og fjármálageirans.
Óhætt er að segja að kjörtímabilið á eftir hafi haft í för með sér verulegar breytingar á þjóðfélaginu og stemningunni eins og kom glögglega í ljós fyrir kosningarnar vorið 2009. Þá gat kjósendum ekki verið meira sama hvort búið væri að kolefnisjafna einhverjar gufur hér og þar í andrúmsloftinu eður ei. Áherslan var meira á að snúa þjóðfélaginu við á sem allra stystum tíma, t.d. með því að gera nýja stjórnarskrá á þremur vikum, fá norskan seðlabankastjóra til landsins og skipa rannsóknarnefndir um alla skapaða hluti. Frambjóðendur þá mættu ekki lengur á framboðsfundi heldur tilfinningaþrungna borgarafundi og gáfu loforð um uppgjör við hitt og þetta.
Þetta er grimmur bransi og þeir sem gengu lengst 2007 að tala upp stemninguna voru ekki líklegir til vinsælda vorið 2009. Það var ekki líklegt til afreka þá að hafa mært íslenska fjármálakerfið tveimur árum áður, þótt það væri það sem flestir hefðu vijlað heyra þá. Og núna, vorið 2013, er engin eftirspurn eftir reiði og kröfum um uppgjör við hina og þessa.
Staða heimilanna
Fyrir kosningarnar núna er það „staða heimilanna“ sem er aðalatriðið og það sem allir ræða um. Í því felst að stjórnmálamenn, sem ætla að skora prik, verða að láta af öllu brölti um nýja stjórnarskrá eða þvíumlíkt tala þess í stað um heimilin, krónur og aura, lán og vexti.
Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart eftir allt sem á undan er gengið. Úrræði og afskriftir hafa hlotið mikla athygli að undanförnu og segja má að umræðan sé svipuð og hún var árin fyrir hrun, nema með öfugum formerkjum. Í stað þess að menn horfi yfir til nágrannans, sjái að hann sé búinn að kaupa sér bíl og sólpall og rjúki út í banka til að fá lán fyrir nýjum bíl og stærri palli, horfa menn nú á þennan sama náunga og spyrja hvers vegna hann hafi fengið meira fellt niður?
Sumir duttu í lukkupottinn
Úrræðin fyrir heimili hafa sannarlega boðið upp á þennan samanburð og hann er eðlilegt að menn geri. Þau hafa að einhverju leyti verið mótuð af stjórnvöldum en að verulegu leyti af niðurstöðum dómstóla og þegar horft er yfir sviðið er ekki hægt að segja annað en að það sé fullkomnum tilviljunum háð hverjir hafi dottið í lukkupottinn og hverjir ekki.
Þannig hafa verðtryggð lán hækkað jafnt og þétt frá hruni og engar lækkanir í boði fyrir þá sem hafa slíkt lán, nema þeir séu yfirveðsettir og hafi fengið 110% leiðina. Í fyrstu prísuðu þeir sem voru með verðtryggt lán sig reyndar sæla, því gengistryggðu lánin höfðu tvö- eða þrefaldast. En þegar dómar Hæstaréttar fóru að snúa þessu við, fyrst með því að dæma höfuðstólshækkun gengistryggðra lána ólögmæta og svo með því að staðfesta í vissum tilfellum samningsvexti á slíkum lánum framan af greiðslutímabilinu, hefur lukkan heldur betur snúist við og nú situr sá verðtryggði eftir í súpunni.
Yfirboðin byrjuð
Upp úr þessu hefur sprottið sú krafa á á stjórnmálamenn um að leiðrétta þennan mismun og kosningarnar í apríl virðast ætla að verða nokkurs konar yfirboðskeppni í því hvað megi gera varðandi verðtryggðu lánin, þar sem Hægri grænir draga enn sem komið er vagninn með tilboði upp á 45% lækkun. Þessu til viðbótar ætla flokkarnir að „láta hjól atvinnulífsins snúast á ný“ og beita til þess handafli ef með þarf, þ.e. að bæta hag heimilanna í gegnum lækkuð lán, lægri skatta og stórauknar framkvæmdir.
Ætli þetta sé það sem muni bjarga heimilunum? Er ekki vandi heimilanna tengdur því að farið var of geyst fyrir hrun þannig að heimilin, sem höfðu tekið gríðarlega fjármuni að láni, lentu í því nánast á sama tíma að gengi krónunnar hrundi, verðbólga rauk upp og vextirnir voru komnir upp úr öllu valdi. Allt þetta kom saman eftir nokkurra ára tímabili þar sem nánast engum var neitað um lán. Jafnvel þeir sem stóðust ekki greiðslumat, stóðust það samt, ef bankastarfsmaðurinn sleppti bara nógu mörgum útgjaldaliðum. Kröfur um eigið fé voru bara einhver þýska, svipað og atvinnuleysi, sem var þá varla mælanlegt á Íslandi, svo mikill var krafturinn í hagkerfinu. Ansi margir sáu því framtíðina bjartari augum en efni stóðu til; allir virtust geta fengið vinnu, allir gátu fengið lán og allir sáu „eignasöfnin“ sín hækka í verði ár frá ári.
Þótt auðvitað ætli enginn sér að endurtaka leikinn frá þessum tíma þá má ljóst vera að það væri sannkallaður bjarnargreiði að fara að fíra upp í grillinu á fullum krafti með stórframkvæmdum, skattalækkunum og stórfelldum niðurfellingum lána sem ríkið þarf með einum eða öðrum hætti að greiða fyrir án þess að íhuga það mjög vandlega í hvaða röð og á hvaða tíma þetta verði gert. Fasteignaverð hækkar hratt og sumsstaðar á eignamörkuðum gætir bóluáhrifa enda geta fjárfestar hvergi farið með peninga sína annað vegna gjaldeyrishaftanna. Tekjur hafa hækkað undanfarin ár og vinnuframboð er aftur farið að nálgast að vera eðlilegt þótt það sem ekki komið á 2007-stigið aftur.
Ráðdeild og skynsemi
Er ekki besta gjöfin til heimilanna frekar sú, að þeir sem haldi um ríkiskassann næsta kjörtímabil sýni aðhaldssemi og ráðdeild, skeri niður útgjöld og reki ríkissjóð réttu megin við núllið? Er ekki heilmikil kjarabót í að heimilin njóti stöðugleika, t.d. varðandi vexti og verðlag, þannig að unnt sé að lækka álögur á fólk? Aðalatriðið hlýtur að vera að forðast sveiflur og risavaxin ævintýri til þess eins að fjármagna kosningaloforð. Þó það hljómi svo ótrúlega lógískt fyrir kjósendur núna að fara út í allar þessar aðgerðir, helst á morgun, yrði það alltof bratt farið. Í öllu falli mun það ekki hljóma jafnlógískt í næstu kosningum á eftir.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021