Þeir komust í hann krappann hjá SMÁÍS um daginn. Þá komu fram fréttir af því að samtökin, sem sjálf berjast gegn ólöglegri neyslu afþreyingarefnis, hafi sjálf ekkert borgað fyrir hugbúnað sem félagið keypti fyrir nokkrum árum. Þetta er auðvitað í meira lagi pínlegt fyrir SMÁÍS – þótt framkvæmdastjórinn beri því við að aldrei hafi staðið annað til en að borga reikningana fyrir hugbúnaðinn.
Það er svosem málsvörn útaf fyrir sig – en undirstrikar að einhverju leyti vanda þeirra sem SMÁÍS telur sig vera að gæta hagsmuna fyrir. Hugbúnaðurinn er afhentur samkvæmt samningi og tekinn í notkun, en erfitt er að taka hann úr sambandi þegar í ljós kemur að kaupandinn sleppir því að borga.
Það er alls ekkert víst að samtökin hafi ætlað að stela hugbúnaðinum þótt hann hafi að vísu ekki verið borgaður. En það ætti ekki að hafa komið SMÁÍS á óvart að seljandinn var fúll. Framleiðendur hugbúnaðarins hafa líklega haft meiri áhuga á því að borga starfsmönnum sínum laun en að styrkja baráttu SMÁÍS á Íslandi. Að þeir hafi þurft að vekja athygli á hræsni samtakanna í íslenskum fjölmiðlum til að fá greiðslu setur Samtök myndréttarhafa á Íslandi í frekar hallærislega stöðu.
Það er reyndar ekki nýtt að SMÁÍS komi sér í hallærislega stöðu. Forsvarsmönnum samtakanna er reyndar ákveðin vorkunn. Málstaðurinn er erfiður.
Ekki svo að skilja að það sé rangt hjá SMÁÍS að hvetja fólk til þess að borga fyrir afþreyingarefni sem það finnur á netinu. Það er ekki heiðarlegt að taka efni á netinu, sem fólk hefur lagt metnað sinn, fjármuni og vinnu í að framleiða, og horfa á það heimildarlaust og án greiðslu. Það stenst ekki siðferðislega. Það er í raun alveg sambærilegt við það að semja um kaup á hugbúnaði, nota hann, en borga ekki.
Vandinn er hins vegar að SMÁÍS berst ekki bara gegn því að efni sé tekið af netinu án greiðslu heldur líka að heiðarlegt fólk borgi sanngjarna greiðslu fyrir sama efni.
Í mjög misheppnaðri auglýsingaherferð SMÁÍS í apríl í fyrra var eftirfarandi haldið fram:
„Í hverjum mánuði neyta þúsundir Íslendinga efnis þar sem eignarréttur er virtur að vettugi. Niðurhal og áskrift að læstri dagskrá af erlendu efni sem ekki er lögmæt hér á landi, t.d. af SKY og Netflix kostar íslenskt þjóðfélag háar upphæðir. Á Íslandi tapa allir á þessu athæfi, skattgreiðendur, rétthafar efnisins og þeir sem starfa í hinum skapandi geirum.“
Það var svo gefið í skyn að sá eini sem ekki tapaði á þessu væri einhver vindlareykjandi, testósterónhlaðin, atvinnuhrotti, sem heitir því ógnvekjandi útlenska nafni Júrí.
Málefnalegt, ekki satt?
Í upptalningu SMÁÍS gleymdist reyndar að geta um tvo hópa sem ekki er hægt að sjá að tapi á „áskrift að læstri dagskrá af erlendu efni sem ekki er lögmæt hér á landi“. Það eru annars vegar neytendur sem greiða fullt verð fyrir þjónustu sem þeir kunna að meta – og hins vegar þeir sem hafa atvinnu af því að framleiða efnið og dreifa því á skilvirkan og aðgengilegan hátt til þeirra sem eru tilbúnir til þess að borga.
Hvað er ósanngjarnt við það fyrirkomulag?
SMÁÍS er ekki að vernda hagsmuni „hinna skapandi greina“ með því að bölsótast gegn því að fólk geti nálgast sjónvarpsþætti og bíómyndir í gegnum erlendar netverslanir. Þvert á móti eru samtökin að hindra slík viðskipti og þar með að skaða „hinar skapandi greinar.“
Eða hver myndi tapa á því ef atvinnuhrottinn Júrí kæmist yfir áskrift af tonlist.is í útlandinu þar sem hann á heima og keypti gegn fullu verði allar plötur Kötlu Maríu, Helgu Möller og Rokklinganna? Væri betra ef í heimalandi hans væru starfrækt samtökin SMÁLI (átti hann ekki örugglega að vera frá Litháen, eða var það misskilningur?) sem berðust gegn þessum viðskiptum. Væri það gott fyrir Kötlu Maríu?
Viðskiptahindranir, eins og þær sem SMÁÍS stendur vörð um, ganga gegn siðferðisvitund flestra og eru fullkominn tímaskekkja. Engin heilbrigð rök mæla með þeim. Með þeim eru takmarkaðir möguleikar fólks til þess að eiga frjáls og heiðarleg viðskipti sín á milli, eingöngu vegna búsetu. Í staðinn gerir kerfið ráð fyrir að hið takmarkalausa úrval afþreyingarefnis sem heiminum stendur til boða fari í gegnum landamærasíur – og hér á Íslandi hefur það þau áhrif að stórskaða úrval neytenda.
Þegar rithöfundurinn Jules Verne fæddist í Nantes í Frakklandi árið 1828 var heimurinn svo yfirþyrmandi stór að það var ævintýralegt að stinga upp á því að hægt væri að komast yfir hnöttinn allan á 80 dögum. Í dag er hægt að komast í samband við hvert einasta byggða ból í heiminum á örfáum sekúndubrotum. Ekkert annað en úrsérgengin löggjöf og sérhagsmunir örfárra aðila standa í vegi fyrir því að Íslendingar geti notið góðs af þeirri þróun sem orðin er á þeim 160 árum síðan Verne gaf út söguna um ævintýri Phileasar Fogg.
Það hlýtur að vera kominn tími til að þau óverjanlegu sérréttindi sem felast í lagalegri takmörkun dreifingar á löglegu efni verði aflögð hér á landi.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021