Nýlega hafa verið sagðar fréttir af nokkrum úrskurðum Fjölmiðlanefndar. Fréttirnar fjalla allar um afskipti nefndarinnar af þeirri dagskrá sem íslensk fjölmiðlafyrirtæki bjóða upp á. Málin snúast annars vegar um sýningartíma á kvikmyndum um helgar og hins vegar um að efni hafi verið sjónvarpað eða útvarpað á ensku án íslensks texta eða þýðingar.
Enginn vafi er á því að þessir úrskurðir hafi trausta stoð í almennum lögum, þótt aðdáendum tjáningarfrelsis finnist eflaust að þau lög gangi ansi freklega gegn því. Hér er því fyrst og fremst við Alþingi að sakast en ekki nefndina, þótt tilvist nefndarinnar sé auðvitað kapítuli út af fyrir sig.
Burtséð frá öllu þessu þá eru málin kjánaleg í alla staði. Er það virkilega svo að eftir nokkra áratugi af stöðugu innstreymi alþjóðlegs afþreyingarefnis að enn hafi eitthvað hugsandi fólk sömu áhyggjur og Styrmir Gunnarsson, þávarendi formaður Heimdallar, og skoðanasystkin hans af vinstri vængnum, höfðu þegar aðgangur Íslendinga að Kanasjónvarpinu var takmarkaður í þágu þjóðernisafturhalds á sjöunda áratuginum.
Óhætt er að segja að lítill skortur sé á íslenskri dagskrárgerð. Líklega hefur hún sjaldan eða aldrei staðið betur. Ástæðan fyrir því er ekki síst sá frábæri aðgangur sem Íslendingar hafa að menningarefni um heim allan. Íslenkt kvikmynda- og þáttagerðarfólk hefur ótal fyrirmyndir úr því sem best er gert í heiminum – og með því að leggja sjálft sig á þannig mælikvarða er líklegt að afraksturinn verði betri heldur en ef unnið er í tómarúmi fátæklegs heimamarkaðar. Kvikmyndagerð í Norður Kóreu, sem er fullkomlega ómenguð af alþjóðlegri lágmenningu, er til að mynda ekki talin upp á marga fiska, jafnvel þótt miklu sé til kostað og æðstu menn stjórnkerfisins taki að sér leikstjórnina.
Nú er það auðvitað fráleitt að draga Norður Kóreu inn í umræðuna – því sannarlega er engin hætta á því að Íslandi verði lokað fyrir alþjóðlegu afþreyingarefni. En þó er þessi freklega krafa um textun og talsetningu sáðkorn af svipuðum meiði. Ef íslenskir fjölmiðlar, sem eru nú fleiri og fjölbreyttari en nokkru sinni, eiga að hafa möguleika á að uppfylla þarfir og óskir Íslendinga um miðlun á sem fjölbreyttustu og vönduðustu efni, þá er kvöðin um textun og talsetningu umtalsverð viðskiptahindrun. Nú til dags getur fólk nálgast nánast takmarkalaust framboð af ýmis konar efni, sem er svo sérhæft að líklegt er að aðeins örlítið brot þjóðarinnar hafi gaman af. Þetta gerir það að verkum að engin leið er til þess að miðla því efni í gegnum íslenka fjölmiðla með þeim umtalsverða aukakostnaði sem lög um fjölmiðla gera kröfu um, og Fjölmiðlanefnd framfylgir.
Dettur annars einhverjum í hug að það væri sérstakur greiði við íslenska tungu og menningu ef gerð væri tilraun til þess að þýða froðuna úr Ryan Seacrest yfir á íslensku áður en henni er sullað ofaní eyru hlustenda? Eða er það svo mikill skaði þótt Gary Lineker og Alan Shearer fái stundum að segja Íslendingum frá gangi mála í fótboltaleikjum? Eru kannski íslenskar lýsingar íþróttaþula síðasta varnarlínan í tilvistarstríði íslenskrar menningar?
Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðum Fjölmiðlanefndar eru málin sem hér ræðir komin til af frumkvæði nefndarinnar sjálfrar. Það var semsagt enginn sem kvartaði. Að þessu leyti sést hversu varhugavart skref það getur verið að setja svona stofnanir á laggirnar. Þegar í ljós kemur að lítil þörf er fyrir starfsemina, þá er eðlilegt og fyrirsjáanlegt að starfsmennirnir finni sér eitthvað að gera – og ráðist þá á garðinn þar sem hann er lægstur. Þessi afskipti nefndarinnar af dagskrárefni frjálsra og einkarekinna fjölmiðlafyrirtæki er dæmi um þetta. Hér þarf að breyta – og Alþingi þarf að skrúfa fyrir þessi úr-sér-gengnu og fullkomlega óþörfu löggjöf, sem hafa ekkert í för með sér nema óþægindi fyrir stjórnendur fyrirtækjanna, takmörkun á valfrelsi neytenda og almenn og óþörf leiðindi.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021