Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar um helgina varpaði ljósi á tvö atriði. Fyrra atriðið er að Jóhanna hefur ekki lengur neitt fram að færa og því rétt hjá henni að draga sig í hlé. Seinna atriði er að innan Samfylkingarinnar virðist vera vaxandi áhugi á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Það litla sem kalla má efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er í molum og innan Samfylkingar hljóta kratar að sjá að samstarfið við vinstrið skilar ekki neinum árangri í efnahagsmálum og mun ekki gera. Vandræðagangurinn með rammaáætlunina sýnir til að mynda glöggt ágreininginn milli stjórnarflokkanna í þessu efnum. Aðförin að sjávarútveginum er annað atriði sem þingmenn Samfylkingar eiga eftir að standa skil á gagnvart kjósendum um land allt. Stjórnarskrármálið stefnir svo að óbreyttu í strand við hliðina á ESB aðildarumsóknarfleyinu. Framhjá þessu og fleiru skautaði Jóhanna eins og vænta mátti af stjórnmálamanni sem neitar að horfast í augu við raunveruleikann.
Þess í stað beindi Jóhanna spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum í ræðu sinni og kom það ekki á óvart. Það er gerir hún iðulega þegar beina þarf athygli sinna flokksmanna og almennings frá vandræðum og getuleysi sinnar eigin ríkisstjórnar og til þess ráðs hefur hún þurft að grípa til allt kjörtímabilið. En pillan var ekki ætluð Sjálfstæðismönnum enda vigta orð Jóhönnu svo sem ekki þungt þar á bæ.
Áróðurinn gegn Sjálfstæðisflokknum var til heimabrúks og settur fram til að vara þá við sem líta til ríkisstjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokknum sem valkost til að rétta af kúrsinn í efnahagsmálum. Hótunin var lítt dulbúin. Þeir sem vilja starfa með Sjálfstæðisflokknum eiga ekki von á góðu frá Jóhönnu. Það eitt sýnir ágætlega fram á að málflutningur Sjálfstæðisflokksins er réttur og það svíður undan honum í herbúðum Jóhönnu.
Áherslan sem lögð var á í ræðunni að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem miður hefur farið var þannig veik tilraun til að búa til samstöðu meðal ríkisstjórnarflokkanna gegn fornum íhaldsfjanda. Afgreiða má þessa ræðu sem gamaldags æsingspólitík sem ekkert mark er á takandi og ólíklegt að hafi einhver áhrif. En brotthvarf Jóhönnu af hinu pólitíska sviði skapar aftur á móti tækifæri fyrir Samfylkinguna til að lofta út og nálgast verkefnin framundan í efnahagsmálum af meiri yfirvegun.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020