Kæri Gouda ostur. Ég sé að þú ert að skipta um nafn og ætlir að kalla þig Góðost. Til hamingju með það. Það eiga allir rétt að heita það sem þeim sýnist. Þú birtir umsókn fyrir nafnabreytingu þinni í blöðum. Í reitnum “ástæður fyrir umsókn” skrifar þú:
“Mér var bara farið að finnast asnalegt að vera með útlenskt nafn þegar ég er í raun rammíslenskur.”
Af hverju fannst þér það, kæri ostur? Hver lét þig þér finnast það asnalegt? Hefur einhver verið að gera grín að nafninu þínu? Ertu búinn að vera að lesa eitthvað blogg? Eða hlusta mikið á útvarpsþætti þar sem fólk hringir inn og svona? Fyrir alla muni, ég er ekki að segja þér hvað þú mátt kalla þig, það er þitt val, en ég vona að þú hafir ekki virkilega látið þér þú finnast vera eitthvað verri ostur þótt þú hafir heitið erlendu nafni. Og finnist þér það sjálfum þá vona ég það allavega að þú dreifir þeim boðskap ekki áfram.
Ég neita því ekki að mér leið óþægilega þegar ég las skýringu þína fyrir nafnabreytingunni. Fjöldi Íslendinga heitir erlendum nöfnum og mér finnst ekki endilega rétt að dreifa þeirri skoðun í blöðum að þau nöfn séu asnaleg, eða að það sé asnalegt að Íslendingar beri þau. Ekkert nafn er asnalegt nema að einhverjum finnist það asnalegt. Menn eiga ekki að hafa þá skoðun að annarra manna nöfn séu asnaleg. Það er bara asnalegt.
Einhverjir hönnuðu þessa auglýsingu fyrir þig, kæri ostur, og meintu líklegast ekkert illt. En til að hafa andrúmsloftið hreint á milli okkar þá læt ég þig hér með vita að mér þótti leitt, og eilítið óþægilegt, að lesa skýringar þínar á nafnabreytingunni. En ætla ég ekki að vera reiður við þig, Góðostur minn. Þú ert, jú, bara ostur. Ég get ekki verið þekktur fyrir að vera reiður við ost.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021