Haft er eftir hagfræðingnum Ha-Joon Cang, frá S-Kóreu, í fyrirlestri sem hann hélt á Íslandi á dögunum, að 95% hagfræðinnar væri almenn skynsemi og 5% sé látin líta út fyrir að vera flókin. Það er nær að segja að 95% af bókinni hans, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá, á lítið skylt við hagfræði heldur sver sig frekar í ætt við pólitískan áróður uppklæddan í sniðugan búning.
En mikið hefur verið látið með þessa bók. Hún var gefin út á íslensku á dögunum, fyrirlestur var haldinn um hana í háskólanum og höfundurinn fenginn til að sitja fyrir svörum í Silfri Egils. Einhverjir töldu sig eflaust hafa fengið í hendur sönnun fyrir því í 23 liðum að kapítalismi sé stórgallað kerfi og frjáls markaður af hinu illa enda gefið að sök að vera aðalorsök fjármálakreppu heimsins.
Það er því ástæða til að gefa því sem fram kemur í bókinni gaum. Það er í sjálfu sér nóg að fjalla um fyrsta atriðið sem sett er fram um að frjáls markaður sé ekki til. Hin 22 atriðin sem eftir koma virðast meira og minna byggja á ímynduðum mýtum um hinn frjálsa markað. Höfundur segist í inngangi bókarinnar ekki vera á móti kapítalisma, bókin sé ekki andkapítalísk stefnuyfirlýsing – en hann setur sig upp á móti kapítalisma frjálsa markaðarins. Það er ekki hægt að segja að til sé kapítalismi án frjáls markaðar. Þá er ekki verið að fjalla um kapítalisma heldur eitthvað annað, til dæmis sósíalisma.
Kapítalismi án frjáls markaðar er jafn ómögulegt fyrirbæri og lýðræði án kosninga. Ha-Joon Cang er ekki fylgjandi kapítalisma þó hann segist vera það. Hann er að boða eitthvað annað þjóðfélagsskipulag án þess að útlista það frekar. En það sem hann boðar er alveg örugglega þó með einhvers konar kapítalísku ívafi. Helst mætti telja að hann væri spenntastur fyrir fyrirkomulagi Kínverja. Hann lofar uppgang kínverska hagkerfisins í bókinni og telur ástæðuna fyrir velgengninni einna helst felast í hvernig valdhöfum alþýðulýðveldisins tekst að hefta markaðinn. Honum dettur ekki í hug að nefna að velmegunin í Kína er einna mest þar sem einstaklingar hafa verið leystir undan viðjum alræðisstjórnarinnar.
Í bókinni er jafnframt fjallað um uppgang efnahagsveldis Bandaríkjanna á 19. og 20. öld. Mikil ríkisafskipti stjórnvalda og þróttur hagkerfisins í Bandaríkjunum á 19. öld er lofað á meðan frjálsræði markaðarins frá 1980 og fjármálakreppan í Bandaríkjunum í dag er löstuð. En þessu er einmitt öfugt farið. Stærð ríkisvaldsins var örsmátt á 19. öld hvernig sem á það er litið miðað við stærð þess í dag. Framhjá því er auðvitað skautað í bókinni enda passar það ekki við kenninguna um að sökudólgur fjármálakreppunnar hljóti að vera frjáls markaður en ekki stórfellt ábyrgðarleysi aðila á fjármálamarkaði í skjóli aukinna ríkisábyrgða. Allt samhengi á milli orsaka og afleiðinga atburða er ítrekað slitið í sundur eða því snúið á rönguna.
Mörg dæmi í bókinni miða að því að sýna fram á að hvergi sé að finna alveg frjálsan markað – frjáls markaður í öllum samfélögum sé alltaf háður reglum og valdboðum stjórnvalda og takmarkast af ýmsum stofnunum samfélagsins. Höfundur bókarinnar dregur af því þá ályktun að mörk hins frjálsa markaðar séu svo óljós að slá megi því föstu að frjáls markaður sé ekki til. Þetta er eins og að slá því föstu að lýðræði virki ekki því ekki sé hægt að sýna fram á að það virki alls staðar fullkomlega.
Frjáls markaður manna hefur alltaf verið til. Það er bara mismikið sem ríkjandi valdhafar hverju sinni í sögunni hafa leitast við að takmarka frelsi manna til orðs og æðis. Kapítalískt hagkerfi er ekki fullkomið í þeim skilningi að allir geta fengið alltaf allt, og benda má á ýmsar aðstæður þar sem verður markaðsbrestur í mannheimum og hlutir fara úr skorðum. Um þau vandamál og lausnir eru heilmikil fræði sem ekki vinnst tími til að gera hér frekari skil. En eitt er víst að boðskapur Ha-Joon Cang er ekki á meðal þeirra fræða.
Af bókinni má þó þrátt fyrir allt hafa nokkuð gagn sem felst aðallega í því að átta sig betur á uppfærðum málflutningi vinstrimanna. Þegar rykið, sem þessi bók hefur þyrlað upp, loksins sest kemur í ljós að búið er að klæða upp gamlar kenningar um aukin ríkisafskipti og höft á frelsi einstaklingsins. Nær væri fyrir áhugamenn um þjóðmál að kynna sér rit Keynes og fleiri frekar en að ætla að Ha-Joon Cang hafi eitthvað nýtt og áhugavert að segja.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020