Íslenska lopapeysan er í tísku. Fyrir ekki löngu sást henni nær eingöngu bregða fyrir í réttum og á hestamannamótum úti á landi og þegar skrítnar landsbyggðasveitatúttur vöppuðu um í henni í sínum náttúrulegu heimkynnum og nærumhverfi dags daglega. Öldum saman hefur þetta undur íslensks hugvits og hönnunar haldið lífinu í ófáum smaladrengjum sitjandi yfir ánum í kulda, trekk og vosbúð. Íslenski lopinn hefur sannarlega staðið fyrir sínu og á ekkert nema gott skilið.
En hvenær er íslensk lopapeysa íslensk? Samkvæmt spökustu mönnum á þingi um þetta málefni er skilgreiningin á íslensku lopapeysunni á þá leið að vera peysa prjónuð úr íslenskri ull (afurð íslensku sauðkindarinnar) af íslenskri konu á Íslandi. Svo einfalt er það og best væri ef braskarar og aðrir kaupahéðnar, sumar hverjir með samband við útlönd, hættu að reyna að rekja garnirnar úr peysunni góðu. Annars yrði örugglega að setja einhvers konar lög til verndar þessu íslenska handbragði.
Þessi skilyrði fróðra manna sem lopapeysa þarf að uppfylla til að teljast íslensk eru ekki óumdeilanleg. Fyrsta sem verður að gagnrýna er hið grófa kynjamisrétti. Hvers á íslenskur karlamaður með prjóna og íslenska ull í hönd að gjalda? Kynjaskilyrðið fær ekki staðist í upplýstu, gagnvirku og nútímalegu samfélagi og því blásið af borðinu án frekari röksemda. Annað sem verður að fjúka líka þessu tengt er skilyrðið um íslenskt ríkisfang prjónamannsins. Eða er hægt að líta svo á að alsírskur víngerðarmaður í franska Champagne héraðinu sé að búa til alsírskt kampavín?
Þá er að taka fyrir hvort nauðsynlegt sé að íslensk lopapeysa sé prjónuð úr íslenskri ull. Líklegast verður að telja þetta mikilvægt atriði í skilgreiningu á uppruna peysunnar en það þarf ekki að vera að það ráði úrslitum eitt og sér. Peysa prjónuð á Íslandi úr útlenskri ull, með eiginleika íslensku ullarinnar, myndi ekki vera frábrugðin peysu prjónaðri úr íslensku ullinni að öðru leyti, til að mynda hvað varðar áferð, handbragð, hönnun, litasamsetningu og þess háttar. Væri það ekki íslensk lopapeysa ef ullin kæmi til dæmis frá Færeyjum? Pæling.
En ef peysa er prjónuð úr íslenskri ull af íslenskum ríkisborgarar í Svíþjóð? Er það þá ekki íslensk lopapeysa sökum hnattrænnar stöðu framleiðslunnar? Ef það er ekki íslensk lopapeysa er hún þá sænsk lopapeysa? Á það að vera svona auðvelt að stela íslensku lopapeysunni og klína öðru þjóðerni á hana? Á ekki íslenska lopapeysan nú betra skilið en að við yfirgefum hana og köstum henni frá okkur ef hún stenst ekki illa ígrunduð skilyrði um tæknilega atriði sem í raun skipta litlu máli í heildarsamhenginu.
Íslenska lopapeysan er fyrirbæri sem lifir í vitund Íslendinga. Þetta er hugmynd sem er tilkomin vegna íslenskra aðstæðna, sögu og menningar og sem varð að veruleika með sérstakri íslenskri þekkingu og hönnun sem hvergi annars staðar var útfærð á sama hátt. Falli peysa að þessum eiginleikum þá getur hún vel átt heima í góðum hópi íslenskra lopapeysa. Það þarf ekki ítarlegri skilgreiningu eða frekari dilkadrætti. Ef það dugar að sjá sporin og greina skugga af eind til öðlast vissu fyrir kenningu um tilurð efnisheimsins og þá ætti það sama að duga í tilviki íslensku lopapeysunnar.
Það felst ótal tækifæri fyrir íslensku lopapeysuna í hinum stóra heimi. Jafnvel er tækifæri til að lýsa því yfir að allar lopapeysur í heiminum séu íslenskar, eða svona allt að því. Rétt eins og Finnar lýstu því yfir að jólasveinninn væri finnskur. Það væri öfugsnúið að fara setja lög og reglugerðir um tilvist íslensku lopapeysunnar til þess eins að einangra og safn-gera þetta sérstaka handbragð með boðum, bönnum, tollum og sköttum.
Ef einhverjum sölu- eða framleiðsluaðila finnst skipta máli að upprunamerkja tryggilega peysu prjónaða á Íslandi af íslenskri konu úr ull af íslenskri kind þá má sá sami alveg gera það og selja slíka vöru með þeim formerkjum. En það þarf ekki á sama tíma að setja verslunar- og innflutningsbann á aðrar lopapeysur af þeim sökum. Á endanum ræður trúveruleiki sölumannsins og eiginleiki vörunnar því hvort kaupandinn finnst hann vera umvafinn íslenskum lopa eða erlendum ullarfjanda.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020