Á nokkurra ára fresti rekur upp á yfirborðið ný fyrirtæki sem virðast ósigrandi. Xerox var eitt sinn þannig fyrirtæki, IBM einnig. Síðan kom Microsoft. Síðan kemur Google og allt sem fyrirtækið snertir verður gagrandi snilld: Þeir eru með bestu leitarvélina, vinsælasta netfangaþjóninn og starfsmenn sem eyða tíma sínum í að hanna bíl sem keyrir sjálfur. Svo kemur Facebook, fyrirtæki sem virðist um stundir netinu stærra. En ekkert af þessu varir að eilífu.
Á þeim tíma sem ég hef fylgst með íslenskri þjóðmálaumræðu hafa þónokkur fyrirtæki haft þá ímynd að vera slíkar verksmiðjur spúandi snilldar að eigendur þeirra og stjórnendur hlytu að eiga efni á nánast hverju sem er. Íslensk erfðagreining var þannig í þessari stöðu fyrir rúmum áratug. Í tengslum við hið endanlaust ókláraða Náttúrufræðihús, sem hlaut síðan nafnið Askja, voru komnar uppi spurningar um hvers vegna DeCode gæti ekki bara klárað húsið fyrir Háskólann. Þeir hlytu að græða svo svakalega mikið á því að hafa betri háskóla við hlið sér, talandi ekki um hvað umtalið yrði gott.
Hálfum áratug síðar voru íslensku bankarnir komnir í sömu stöðu. Væntingar til þeirra frá almenningi og þeim sjálfum voru slíkar að það þótti ekkert óeðlilegt við það að þessi fyrirtæki myndu fjármagna tónlistarhallir og aðra snilld sem ekkert tengdist starfsemi þeirra. Og oft reyndu þau sitt besta til að standa undir þeim væntingum.
Þótt hált sé á toppnum er alltaf þar alltaf pláss fyrir einn eða tvo, því sama hvernig mönnum gengur er alltaf einhver sem stendur sig betur en aðrir. Ætli tölvuleikjabransinn, með fyrirtæki á borð við CCP í broddi fylkingar, eigi ekki „á hættu“ á að verða næsta tímabundna eilífa snilld í hugum landsmanna. Í því felst vitanlega engin ósk um þeim iðnaði vegni illa, þvert á móti. Hins vegar ættum við kannski að hafa á því skilning að í þekkingarbransanum er samkeppnin hörð og fáum tekst að lifa af í mörg ár, hvað þá að leiða í mörg ár. Kannski væri því rétt að menn stilltu sínar væntingar til vinsældarverkefna íslenskra fyrirtækja í ákveðið hóf.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021