Í næstu viku mun hópur íslenskra og erlendra frumkvöðla koma saman til skrafs og ráðagerða þar sem leitast verður svara við spurningunni: „hvernig búum við til frjósaman jarðveg fyrir sprotafyrirtæki?“. Ráðstefnan, sem heitir Startup Iceland (sem má bæði þýða sem „Ræsum Ísland“ eða „Sprotafyrirtækið Ísland“) er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en stefnt er að því að viðburðurinn verði árlegur.
Ráðstefnan er grasrótarframtak hugsjónarfólks sem hefur safnað liði til þess að koma Íslandi aftur í gang með því að setjast saman og deila sögum af því hvernig hægt er að framkvæma það sem áður var talið ómögulegt.
Á meðal íslenskra þátttakenda á ráðstefnunni eru leiðandi aðilar í nýsköpun á Íslandi, bæði á meðal stærri fyrirtækja eins og Össur og CCP en einnig hjá sprotafyrirtækjum eins og Clara, GreenQloud og GogoYoko.
Erlendir þátttakendur ráðstefnunnar eru mjög spennandi en skipuleggjendum hennar hefur tekist að fá frábæra fyrirlesara til þess að koma til landsins. Þar má fyrst nefna Brad Feld hjá Foundry group en Brad er einn af stofnendur Techstars frumkvöðlanetsins í Bandaríkjunum og á stóran þátt í hraðri uppbyggingu á frumkvöðlasamfélaginu í Boulder í Colarado. Á meðal fyrirtækja sem Brad hefur fjárfest í má nefna Zynga framleiðendur Farmville.
Annar Brad sem flytur fyrirlestur er Brad Burnham hjá Union Square Ventures (USV) sem er framtaksfjárfestingasjóður í San Francisco. USV hefur á ferilskránni fjárfestingar í fyrirtækjum á borð við Twitter, Tumblr og Meetup.
Annað skemmtilegt einkenni ráðstefnunnar er hópur ungra frumkvöðla sem ætlar að koma í hópferð til Íslands, upplifa landið og taka þátt í ráðstefnunni. Skipuleggjandi hópferðarinnar heitir Matt Wilson en hann heldur úti vinsælli vefsíðu sem er hugsuð fyrir ungt fólk sem stjórnar fyrirtækjum (Under30CEO). Í þessum hópi má finna nöfnurnar Rebekku Kantar og Rebekku Hwang. Sú fyrrnefnda hefur stofnað nokkur fyrirtæki en sú síðarnefnda, sem fæddist í Suður Kóreu, ólst upp í Argentínu og býr nú í Bandaríkjunum er meðal annars handhafi þriggja alþjóðlegra einkaleyfa sem hún gaf til hjálparstofnanna sem notuðu þau til þess að búa til tæki sem auðveldaði meðferð við Kóleru.
Viðfangsefni ráðstefnunnar er m.a. árangur og erfiðleikar íslenskra frumkvöðla, mikilvægi styrkja og í nýsköpun, nýsköpun í orkunýtingu og nýting sjálfbærra orkulinda, hið komandi endurreisnartímabil frumkvöðlanna og nýting á samfélagsmiðlum til að byggja upp viðskiptaauðkenni, og hvernig mismunandi svæði (borgir, héruð) geta búið til frjósaman jarðveg fyrir sprotafyrirtæki.
Þátttakendur í Startup Iceland koma frá Íslandi, Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Asíu og Suður-Afríku.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á http://2012.startupiceland.com/
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021