Brjóta niður og byggja upp ?

Borgarskipulag þarf ekki alltaf að einkennast af vexti, þéttingu, niðurrifi og enduruppbyggingu, þó það virðist oft vera raunin. Heldur eru félagslegu þættir borga alveg jafn mikilvægir; hvað það er sem fær fólki til að líða vel í borg, hvað það er sem skapar lífsgæði og vellíðan á stað sem fólk býr eða dvelur á.

Borgarskipulag þarf ekki alltaf að einkennast af vexti, þéttingu, niðurrifi og enduruppbyggingu, þó það virðist oft vera raunin. Skipulag virðist oft falla í þá gryfju að vera skilgreind og einkennd með arkítektúr og verkfræði, þar sem mikið snýst um byggingar, steypu, stál og aðra áþreifanlega hluti. Eftir að stunda nám í borgaskipulagi varð pistlahöfundur meira og meira meðvitaður og áhugasamur um mikilvægi félagslegu þátta borga; hvað það er sem fær fólki til að líða vel í borg, hvað það er sem skapar lífsgæði og vellíðan á stað sem fólk býr á. Auðvitað þarf grunnkerfið að vera til staðar og tilgangur þessa pistils ekki að upphefja og hvetja til þess að við förum aftur í torfbæina, en að rífa niður og byggja nýtt er ekki alltaf lausnin.

Sama á við um upplifun fólks af stað sem það kemur á og þekkir ekki til. Jú það getur verið að Harpan verði jafn vinsælt myndefni hjá ferðamönnum sem koma til Reykjavíkur eins og Eiffel turninn í París og Óperuhúsið í Sydney, en að sama skapi er það oft eitthvað allt annað sem fólk man helst eftir. Það að sitja á kaffihúsi í París og fylgjast með frökkunum labba með baquette undir hendinni; já þetta er ekki mýta, eða setjast á hafnarbakkann í Sydney og fylgjast með bátunum fara fram hjá, situr mun betur eftir. Ný upplifun, öðruvísi siðir og menning sem skapa minningar um eitthvað framandi og sérstakt.

Gamla höfnin í Reykjavík hefur tekið miklum stakkaskiptum undanfarið og er miðbærinn farinn að teygja sig nánast alla leið út á Granda. Nýlega var opnað hótel við gömlu höfnina í Reykjavík, beint fyrir framan slippinn. Áformað var að slippurinn fengi að víkja fyrir glæsiíbúðum eins og þróunin hefur verið í mörgum öðrum gömlum hafnarborgum. Samkvæmt fréttum af væntanlegu rammaskipulagi fyrir Reykjavíkurhöfn er nú gert ráð fyrir að slippurinn verði áfram á sínum stað, að minnsta kosti í bili, verður að segjast að þetta eru frábærar fréttir. Greinahöfundur kíkti nýverið á Slippbarinn sem er partur af hótelinu og með útsýni yfir slippinn. Þetta er alveg einstakt og eins og einn starfsmaður barsins hafði orð á, þá væru ferðamennirnir furðu losnir og svakalega upphrifnir yfir þessu, sérstaklega þeir sem hefðu orðið vitni af því þegar nýtt skip kom inn í slipp en það eru ekki margir sem upplifa slíkt oft á ævinni. Hvort haldiði að þessir ferðamenn muni betur eftir eða segja vinum sínum frá milljarða Hörpunni eða þegar þeir sáu skip koma inn í Slipp?

Í rammaskipulaginu fyrir Reykjavíkurhöfn segir: “Að vinna með það sem fyrir er, í stað þess að rífa og byggja nýtt”, þetta eru góð einkunnarorð og mætti Reykjavíkurborg og fleiri borgir taka þetta upp í víðara mæli. Við höfum fullt að vinna með, ja fyrir utan öll bílastæðin, þau mega mörg missa sig. Sjáum fegurðina í fjölbreytileikanum og njótum þess sem Reykjavík hefur upp á að bjóða, það þarf ekki alltaf að brjóta niður til að byggja upp.

Heimild:
http://www.ruv.is/frett/slippurinn-faer-ad-vera-um-sinn

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)