Í fréttum heyrist reglulega umræða um Ipad-væðingu grunnskóla landsins. Borgarfulltrúar hafa jafnvel þurft að fara til Ameríku til að kynna sér þetta. Það getur vel verið að sá tími komi að það verði eðlilegt að notast við Ipad í kennslu og að bækur verði með öllu óþarfar, en sá tími er ekki kominn. Á meðan við getum ekki einu sinni haldið uppi hefðbundinni kennslu vegna fjárskorts, er erfitt að sjá tilganginn í því að kaupa svo dýran búnað. Ég undanskil þó sérkennslu frá þessu, þar getur þessi tækni hjálpað gríðarlega frá fyrsta degi.
Vandamál grunnskólans liggur ekki í þungum bókum nemenda. Þeir peningar sem fara í að fjárfesta í nýrri tölvutækni væru mun betur nýttir á öðrum stöðum og til að byrja með að endurnýja þann tölvukost sem fyrir er í grunnskólum. Það er erfitt að ímynda sér að skólar sem hafa ekki getað endurnýjað tölvukost sinn í áraraðir fari allt í einu að fá fullar hendur fjár til að kaupa tæki sem í dag kosta yfir 80 þúsund krónur stykkið. Jafnvel þótt verulegur magnafsláttur fengist, eru þetta gríðarlegar fjárhæðir. Fjárhæðir sem ólíklegt er að skili sér beint í betri kennslu. Enn á eftir að verða gríðarleg þróun varðandi þetta, þar sem bæði magn og gæði kennsluefnis á eftir að aukast og svo á eftir að koma í ljós hvort Ipad sé hentugur miðill eða hvort aðrar ódýrari spjald/lestölvur séu ekki betri kostur.
Samtök atvinnulífsins bentu á það á dögunum að bæta þyrfti kennslu í grunnskólum, í skýrslu þeirra Uppfærum Ísland segir:
„Í grunnskólanum þarf að hvetja til sköpunar og tæknimenntunar og að kenna börnum í ríkara mæli sjálfstæða hugsun. Ótækt er að sætta sig við að hátt hlutfall barna, einkum drengja, kunni vart að lesa eftir margra ára skólagöngu. Það þarf átak til að halda við og efla áhuga barna á raun- og tæknigreinum og tengja tæknina, sem þeim er auðlærð á þessum árum, við sem flest áhugasvið.“
Margt er til í þessu hjá SA. Skortur á menntun í raun- og tæknigreinum verður þó ekki bættur með því að fara út í að kenna efni á spjaldtölvum. Mun nær væri að skoða aðrar leiðir sem hafa verið að koma fram eins og Raspberry Pie. Raspberry Pie er mjög einföld tölva sem keyrir á Linux og hefur verið sérhönnuð til kennslu. Verðið er mjög hagstætt en hún kostar 25 dollara (innan við 5 þúsund með sendingarkostnaði, sköttum og gjöldum). Tölvan var þróuð í Camebridge í Bretlandi, þar sem menn áttuðu sig á því að þrátt fyrir að ungt fólk kunni að nota tölvur, þá vantaði upp á að skilja grunninn. Menn horfðu til þess tíma, þegar þeir sem notuðu tölvur á annað borð kunnu aðeins að “hakka” tölvurnar og um leið að skilja undirstöðuatriði tölvunnar.
Rasberry Pie er ætlað að gefa nemendum tækfæri að hakka sig áfram og læra undirstöðu atriði með því að prófa sig áfram. Tölvan kemur uppsett með ýmsum grunnforritunarmálum (Python, BBC Basic, C og Perl) sem nemendur geta svo notað til að láta tölvuna framkvæma ýmsar aðgerðir. Hægt er að tengja við hana skjá og lyklaborð. Þróaður hefur verið ýmis búnaður sem hægt er að tenga við tölvuna svo sem vélmenni eða búa til einfalda leiki eða forrit.
Innleiðing opins hugbúnaðar í skólastarf hefur skotið upp kollinum endrum og eins seinasta áratug, nú seinast í skýrslunni “Aðgerðaáætlun fyrir innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar hjá opinberum aðilum”, þar sem ítarlega var fjallað um innleiðingu á opnum hugbúnaði (ekki bara í grunnskólum). Því miður hefur lítið gerst í þessum efnum og er þar án efa þekkingar og stuðningsleysi um að kenna. Fyrir utan að vera þjóðhagslega hagkvæmt að nota frekar á opninn hugbúnað en læstan, þá er líklegt að það myndi auka frekari áhuga nemenda á forritun og án efa verða til þess að áhugi á tækni myndi aukast(sé rétt að því staðið).
Sjálfsagt eru margir sem líkja þessum hugleiðingum við hugmyndir bænda sem riðu af Suður- og Vesturlandi og mótmæltu símanum í upphafi aldarinnar. En sú samlíking er líklega bara ágæt, enda voru bændur ekki að mótmæla sjálfum símanum, heldur því að verið var að fara kostnaðarsama leið á meðan hægt var að fara aðrar ódýrari (það er þeir vildu notast við þráðlausa tækni í stað þess að leggja strengi). Ég er því óhræddur við að vera settur í sama flokk og bændurnir. Ég hef meiri áhyggjur af því að borgarfulltrúar og aðrir sem taka ákvarðanir varðandi grunnskóla, séu meira fyrir að fá boðsmiða á tónleika og fylgja einhverjum dægurflugum frekar en að hugsa um það sem skiptir öllu máli, þ.e. kennsluna sjálfa.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020