Forsætisráðherra: „Jæja krakkar. Góðan daginn.“
Ríkisstjórnin: „Góðan daginn, forsætisráðherra.“
Forsætisráðherra: „Í samræmi við 17. gr. stjórnarskrárinnar hef ég boðað til þessa fundar til þess að ræða mikilvægt stjórnarmálefni.“
Ríkisstjórnin: „Vá.“
Forsætisráðherra: „Það er nú málið. Ég hef komist að því að íslensku bankarnir standa ákaflega veikt og munu líklega hrynja eftir nokkra mánuði ef við förum ekki eitthvað að gera í þessu.“
Félagsmálaráðherra: „Mun þetta hafa áhrif á barnabætur?“
Forsætisráðherra: „Það er góð spurning. Jú. Það gæti verið.“
Samgönguráðherra: „En vegagerð?“
Forsætisráðherra: „Jú. Vegagerð líka.“
Samgönguráðherra: „En ekki í mínu kjördæmi samt, er það nokkuð?“
Forsætisráðherra: „Það verður bara að koma í ljós… En eins og ég var að segja þá hef ég boðað þennan fund til þess að segja ykkur frá þessu máli. Þið ráðið svosem hvað þið gerið við þetta. En ég er þá að minnsta kosti búinn að segja ykkur frá málinu á þessum fundi. Allir klárir á því, er það ekki?“
Heilbrigðisráðherra (sposkur á svip): „Ég var reyndar búinn að frétta að bankarnir gætu verið í vandræðum?“
Forsætisráðherra: „Ha? Hvernig má það vera? Er einhver leki í gangi?“
Heilbrigðisráðherra: „Nei nei. Það var skopmynd í blaðinu. Eftir hann þarna Halldór. Dálítið fyndin. Og svo er eitthvað búið að vera að tala um skuldabyggingarálögin. Þau hafa hækkað. Það er víst alls ekki gott.“
Forsætisráðherra: „Já einmitt. Svokallað skuldatryggingaálag hefur hækkað af því það eru efasemdir um að bankarnir greiði lánin sín aftur.“
Landbúnaðarráðherra: „Ha? Skulda bankarnir einhverjum? Ég hélt að það væri öfugt – að það væri bara fólk sem skuldaði bönkunum?“
Forsætisráðherra: „Nei. Bankarnir skulda líka. En semsagt…Nú er ég búinn að segja ykkur frá þessu máli. Hefur einhver tillögu?“
Sjávarútvegsráðherra (sem er líka landbúnaðarráðherra en setur á sig sjóhatt þegar hann breytir sér): „Verðum við ekki bara að bjarga þessu?“
Forsætisráðherra: „Bjarga þessu? Hvað áttu við?“
Sjávarútvegsráðherra: „Taka bara á þessu máli. Kippa þessu í liðinn. Leggjast á árarnar. Sigla skipinu í strand…ég meina land…ég meina höfn.“
Forsætisráðherra: „Það er nú kannski ekki alveg svona einfalt.“
Forseti Hæstaréttar, sem tók þátt í fundinum í gegnum Skype (draugsleg rödd sem fyllir herbergið): „Jú. Þetta er víst einfalt.“
Forsætisráðherra: „Markús? Hvað áttu við? Hvernig er það einfalt?“
Forseti Hæstaréttar: „Það þarf að grípa til skipulegra aðgerða til að forða þjóðinni frá hugsanlegu tjóni sem gæti orðið einhvern tímann í framtíðinni. Við vitum samt ekki hvort eða hvenær.“
Forsætisráðherra: „Segðu okkur hvað við eigum að gera. Gerðu það.“
Forseti Hæstaréttar: „Nei.“
Ríkisstjórnin öll: „Gerðu það, Markús. Gerðu það. Hvernig komum við í veg fyrir þennan hugsanlega skaða sem gæti orðið einhvern tímann í framtíðinni?“
Forseti Hæstaréttar: „Ókei. Ég skal segja ykkur það.“
Ríkisstjórnin öll bíður í ofvæni.
Dramatísk þögn.
Forseti Hæstaréttar: „Þið þurfið að halda fleiri fundi.“
Viðskiptaráðherra: „Þarf ég að vera á þessum fundum?“
Forseti Hæstaréttar: „Það er mjög mikilvægt að þú sért á þessum fundum.“
Forsætisráðherra: „Takk fyrir þetta. Við gerum þetta bara. Höldum fleiri fundi. Þá hlýtur þetta að reddast.“
Viðskiptaráðherra: „Í fyrsta lagi finnst mér frábært að við séum að halda þennan fund. Ég er alveg hundrað og fimmtíu prósent viss um að við getum minnkað tjónið af hugsanlegu falli bankanna um svona þrjú hundruð prósent ef við erum bara öll að vinna stanslaust í þessu.“
Landbúnaðarráðherra, iðnaðarráðherra, félagsmálaráðherra og samgönguráðherra, allir samtímis: „En ég veit bara ekkert um banka.“
Forseti Hæstaréttar: „Þið eruð öll jafnmikilvæg. Ekki láta neinn segja ykkur annað.“
Umhverfisráðherra (skælbrosandi): „Í alvöru? Líka ég?“
Þögn.
Forsætisráðherra: „Jæja. Leysum þetta þá. Hvað segið þið, krakkar – any bright ideas?“
Félagsmálaráðherra: „Mér dettur í hug að senda út fréttatilkynningu. Bara láta vita að þetta sé allt í vinnslu.“
Viðskiptaráðherra: „Mjög góð hugmynd. Líka mjög mikilvægt að senda hana út á ensku, svo útlendingarnir viti að það sé allt á fullu hérna við að bjarga bönkunum. Eitthvað svona – Emergency Cabinet Meeting Discusses Likely Collapse of the Icelandic Banking System – ég get svo farið á CNN eða eitthvað.“
Félagsmálaráðherra: „Já. Það mun pottþétt róa fólk. Þá veit fólk að við erum að vinna í þessu og getur bara hætt að hafa áhyggjur, skuldahrygningarforlagið mun snarlækka.“
Forseti Hæstaréttar: „Glæsilegt krakkar, ég læt ykkur svo vita næst þegar það er ríkisstjórnarfundur og hvað er á dagskrá og svona. Fundi slitið.“
Forsætisráðherra: „…öh, bara takk fyrir þetta. Ég er þá búinn að gera skyldu mína. Ekki hægt að saka mig um neitt. Er ekki örugglega einhver að halda fundargerð hérna?“
Viðskiptaráðherra: „Way ahead of you, maður. Búinn að setja hana á netið.“
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021