Þegar einhver talar um að labba Laugaveginn er nánast undantekningarlaust verið að tala um hina vinsælu 54 km gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur en ekki Laugaveginn í hundrað og einum Reykjavík sem er einungis um einn km að lengd. Fyrir þessu er mjög augljós ástæða, hin vinsæla 54 km óbyggðaleið er ætluð gangandi og því afar heillandi að njóta útiverunnar án nokkurar mengunnar. Laugavegurinn í miðbæ Reykjavíkur er aftur á móti í núverandi mynd, hannaður fyrir bílaumferð. Það að bera saman þetta tvennt hljómar nú kannski eins og að bera saman epli og appelsínur, enda er tilgangurinn einungis sá að benda á þá kómísku staðreynd sem fellst að baki þessu orðalagi, að labba Laugaveginn.
Fyrsta uppsveiflan í Reykjavík byrjaði í seinni heimstyrjöldinni. Borgin stækkaði og bílaeign jókst hratt. Stuttu fyrir stríðið var bílaeign orðin umtalsverð og gatnagerðaplön frá þessum tíma marka upphafið að bílavæðingu Reykjavíkur. Um tíu árum eftir stríðið, var fyrsta aðalskipulagið fyrir Reykjavík gefið út, og voru ein helstu einkenni þess að svæðum borgarinnar var skipt upp eftir landnotkun; í iðnaðar-, verslunar-, græn- og loks íbúðarsvæði og stórar umferðaræðar sem lágu þvert í gegnum miðborgina. Ísland er mjög aftarlega á merinni hvað varðar almenningsamgöngur og er einkabíllinn ennþá einn helsti fararskjóti Íslendinga. Í dag er bílaeign Íslendinga mun meiri heldur en í öðrum löndum Evrópu og jafnast á við bíleign Bandaríkjamanna. Þessi mikla bílaeign er skiljanleg þar sem landið er strjálbýlt og fólksfjöldi lítill. Reykjavík er einnig strjálbýl en sé hinsvegar þéttleiki miðbæjar Reykjavíkur skoðaður, þá er hann mjög sambærilegur við aðrar borgir í Evrópu.
Snúum okkur þá að Laugaveginum í miðbæ Reykjavíkur, Laugavegurinn sem fáir ganga, nema neon-vindjakkaklæddir ferðamenn og margir keyra. Síðasta sumar lokuðu borgaryfirvöld neðri hluta Laugavegarins tímabundið fyrir bílaumferð, mótmæli áttu sér stað meðal verslunareiganda en þessi tilraun tókst ekki verr til en svo að ákveðið var að framlengja lokunina. Verslunareigendur virðast þó enn vera hræddir við framþróun og í lok síðasta mánaðar skrifaði talsmaður hóps þeirra, grein í Fréttablaðið til að mótmæla öllum frekari ‘aðförum borgaryfirvalda að Laugaveginum’. Frekari lokanir munu skaða verslanir og skerða aðgengi aldraðra og öryrkja ásamt því að fyrirhuguð hækkun bílastæðagjalda munu fæla fólk frá miðbænum eru meðal röksemda greinarinnar. Ekki má heldur gleyma því að veðrið á Íslandi er mun verra en alls staðar annarsstaðar.
Samkvæmt könnun sem gerð var af borgaryfirvöldum árið 2009 eiga einungis um helmingur þeirra sem keyra niður Laugaveginn erindi á götunni, sem sagt um helmingur þeirra bíla sem keyra á Laugaveginum eru einungis að ‘rúnta’. Við Laugaveginn eru fjölmörg bílastæðahús, í og undir 500 metra radíus eru hvorki meira né minna en sjö bílastæðahús með yfir 1100 bílastæðum samtals. Hækkun bílastæðagjalda þarf ekki að fæla burt viðskiptavini, heldur gætu borgaryfirvöld farið í samstarf við verslunareigendur um að viðskiptavinir fái ókeypis bílastæði í ákveðinn tíma með því að framvísa kvittun, þetta er algengt víða erlendis.
Árið 2010 var fræg mynd af fararskjótum, endurtekin á Íslandi til að sýna hversu mikið pláss bílar taka móti öðrum fararskjótum undir yfirskriftinni Myndum Borg. Þessi mynd gefur góða lýsingu á því hversu mikið af fólki og hjólum kæmust fyrir á Laugaveginum ef bílaumferð og bílastæði yrðu fjarlægð. Þeir sem eiga erfitt um gang munu enn komast að Laugaveginum á þeim fjölmörgu hliðargötum sem liggja að honum og einnig yrði auðvitað að vera möguleiki fyrir sjúkra- og slökkviliðsbíla að komast að götunni. Ein stærstu mistök við skipulag á Íslandi eru lágmarksákvæði byggingarreglugerðar um bílastæði, sem gera það að verkum að mikið af plássi sem hægt væri að nýta fyrir fólk, græn svæði eða húsnæði eru flöt grá svæði. Hver bíll á því mörg stæði, heima hjá sér, á vinnustaðnum og við verslun, því er alls ekki óeðlilegt að notandinn borgi fyrir eitthvað af því plássi sem hann notar.
Veðráttan á Íslandi er ekki verri en á öðrum stöðum þar sem göngugötur þrífast vel sem verslunargötur. Td. London, Kaupmannahöfn og Frankfurt þar sem greinahöfundur býr, það stoppar ekki fólk að njóta þessa að labba niður í bæ. Íslendingar í útlandaferðum veigra sér heldur ekki við að labba marga kílómetra til að skoða sig um í borgum heimsins, þegar heim er auðvelt að detta í þann pakka að keyra frá dyrum til dyra. Vegna þátta eins og hækkun bensínverðs og aukinnar umhverfisvitundar hefur þó orðið mikil vakning í notkunar annarra fararskjóta en einkabílsins, sérstaklega hvað varðar styttri ferðir. Bílaeign Íslendinga mun alltaf verða há sökum hversu strjálbýlt landið er. Auðvitað þarf meiri möguleika í almenningssamgöngum til að hægt sé að minnka bílanotkun að ráði en það er óþarfi að hygla bílnum á kostnað gangandi og hjólandi. Mikil notkun einkabílsins á Íslandi er ekki réttlætanleg ástæða til að halda Laugaveginum opnum fyrir bílaumferð. Borgir eru byggðar upp af fólki og sá langlífi hugsunargangur á Íslandi að einkabíllinn sé samasemmerki við frelsi er afturhaldssemi og ekki leiðin til framþróunar. Auðvitað liggur visst frelsi í því að eiga bíl en staðreyndin er sú að hyglun einkabílsins við borgarskipulag skaðar mun meira frelsi þeirra sem kjósa eða þurfa að notast við aðra fararskjóta, hvort sem það eru almenningssamgöngur, hjól eða tveir jafnfljótir. Það vantar meira jafnvægi milli fararskjóta, sérstaklega innan borgarmarkanna.
Það er óumflýjanleg staðreynd að Laugavegurinn mun verða án bílaumferðar í framtíðinni, það er bara spurning um tíma. Mannlífi miðbæjarins hefur verið raskað nógu lengi með plássfrekri, hávaðasamri og mengandi bíla’menningu’. Fyrsta skrefið er að gefa gangandi og hjólandi vegfarendum meiri rétt og frelsi til að athafna sig. Fólksfjöldi Reykjavíkur er einungis jafnmikill og hjá smábæ í öðrum löndum en hvaða smábær hefur ekki líflega göngugötu með blómstrandi verslun?
Gleðilegt sumar!
Heimildir:
Grein í Fréttablaðinu frá 28.mars “Aðför borgaryfirvalda að Laugaveginum”: http://visir.is/adfor-borgaryfirvalda-ad-laugaveginum/article/2012703289979
Ferðavenjukönnun Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar 2009: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-4531/7790_read-16544/
Myndum Borg: http://www.gislimarteinn.is/wp-content/uploads/2010/09/Myndum-borg-plakat3.jpg
- Orðum fylgir ábyrgð - 22. apríl 2015
- The Pain of Paying - 9. febrúar 2015
- 105 er nýi 101 - 20. október 2014