Hamed Haddidi er hvorki frægasti né besti leikmaðurinn í NBA deildinni í körfubolta. Hann fær stöku sinnum tækifæri til þess að spreyta sig í leikjum Memphis Grizzlies, yfirleitt þegar einhver annar er meiddur eða í villuvandræðum. Í þeim tuttugu og átta leikjum sem hann hefur spilað í vetur hefur hann skorað 58 stig. Hann er hins vegar í töluverðu uppáhaldi hjá aðdáendum liðsins, enda er hann baráttuglaður innanvallar og hefur lagt sig fram um að vera fyrirmyndarborgari utan hans. Það sem hann hefur þó fyrst og fremst unnið sér til frægðar er að vera fyrsti NBA leikmaðurinn frá Íran.
Memphisborg er í Tennessee fylki í Bandaríkjunum. Óvíða slær hjarta íhaldsmanna kröftugar. Í forsetakosningunum 2008 rúllaði John McCain léttilega yfir Obama og í prófkjöri Repúblikana nú í vor vann Rick Santorum öruggan sigur og Newt Gingrich fékk tæplega fjórðung atkvæða. Þessir tveir frambjóðendur höfðu talað hvað ákveðnast um áhuga sinn á stríðsátökum í Íran. Santorum varð líklega fyrsti alvöru frambjóðandi í bandarískri pólitík sem gerði loftárásir á annað land að kosningaloforði.
Þeir Santorum og Gingrich eru þó ekki þeir einu sem hafa stríðsátök við Íran á dagskrá. Obama forseti virðist færast stöðugt nær því að sannfærast um að gott væri að byrja nýtt stríð í Mið-Austurlöndum. Stöðugt eykst þrýstingurinn á Íran. Kenningar um að stjórnmálamenn í Íran vilji koma upp kjarnorkuvopnum eru stöðugt fréttaefni á Vesturlöndum. Það hljómar kunnuglega. Sérfræðingar Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar hafa hins vegar engin merki séð um kjarnorkuvopnaþróun í Íran síðustu níu árin. Meira að segja fyrrum yfirmaður ísraelsku leyniþjónustunnar, Mossad, hefur varað opinberlega við því að ráðist sé á Íran. Það hljómar líka kunnuglega. Þeir sem til þekkja segja hættuna ekki vera til staðar en samt er henni haldið á lofti.
Allt bendir því til þess að Íranir megi búast við því að haldin verði blóðug flugeldasýning á CNN innan fárra missera. Leiðtogar Írans hafa á undanförnum árum horft upp á Vesturlönd fara í stríð til þess að losna við tvo harðstjóra í nágrenninu. Þeir Saddam Hussein og Gaddafí áttu það sameiginlegt að vera tiltölulega hefðbundnir ruglaðir harðstjórar í sínum löndum – en líka að hafa einhvern tímann gælt við að koma upp kjarnorkuvopnum en hætt við það. Fyrir Ahmadinijad og félaga í Teheran er jafnan því nokkuð augljós. Annars vegar er hægt að koma sér upp kjarnorkuvopnum og fá að vera í friði eins og Norður-Kóreumenn. Hins vegar er hægt að hætta alfarið við það og fá í staðinn á sig viðskiptabönn og loftárásir í forrétt áður en þeir verða sjálfir drepnir í aðalrétt. Þótt þessir fúlu fautar eigi ekkert gott skilið þá er barnaskapur að halda að þeir séu eitthvað annað en fullkomlega rökréttir þegar kemur að því að meta sína eigin persónulegu hagsmuni. Væri ekki nær að bjóða írönsku þjóðinni upp á frjáls viðskipti og aukin samskipti til þess að minnka einangrun þessara landa, frekar en að reisa girðingar í kringum landið.
Vesturlönd þykjast nú vera að reyna að berja Íran til hlýðni með viðskiptaþvingunum. Svoleiðis aðgerðir hljóma kannski mildilega í eyrum flestra. Það er hins vegar ákaflega hæpið að hægt sé að finna betri leið til þess að herða tök hinna vondu stjórnvalda heldur en einmitt að draga úr möguleikum borgaranna til þess að stunda viðskipti, auðgast, ferðast til útlanda og kynnast því sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Heldur til dæmis einhver að íslenska þjóðin hefði verið líklegri til þess að samþykkja Icesave samningana ef Evrópusambandið hefði sett viðskiptabann á landið?
Það gildir sama um viðskiptabann eins og um loftárásirnar sem gerðar voru á óbreytta borgara í seinni heimsstyrjöldinni. Árásirnar voru gerðar vegna þess að hernaðarsérfræðingar töldu að þannig mætti draga baráttuþrek úr almennum borgurum. Kenningin var sú að þeir yrðu svo hræddir að þeir myndu þrýsta á stjórnvöld að gefast upp. Þessu var haldið fram þótt þá hafi þegar verið til staðar takmörkuð reynsla sem benti til hins þveröfuga. Bretar fundu það á eigin skinni að samstaða þjóðarinnar og baráttuþrek stórjókst þegar Þjóðverjar vörpuðu sprengjum á breskar borgir. Þeir héldu því hins vegar fram að þetta væri sérstakur eiginleiki bresku þjóðarinnar – hinir lingerðu Þjóðverjar myndu örugglega bregðast allt öðruvísi við, lympast niður og grátbiðja um miskunn. Allt var þetta bull.
Það er líka bull að halda því fram að það sé góð hugmynd að kippa stoðunum undan atvinnulífi í landi eins og Íran. Miklu líklegra er að stóraukin viðskipti við landið myndu gera þarlendum stjórnvöldum erfiðara að hegða sér með þeim hætti að það ógnaði afkomu þjóðarinnar. Þar að auki eru viðskipti auðveldasti farvegur menningarstrauma, nýrra hugmynda, tísku og tækni. Íranska þjóðin er upp til hópa fremur frjálslynd og nútímaleg. Hún umber stjórnvöld en styður þau tæplega. Allt vald sem einstaklingar og fyrirtæki í landinu öðlast er miklu líklegra til þess að gagnast til að losna við hin vitfirrtu stjórnvöld heldur utanaðkomandi þvinganir. Viðskiptahöft bitna fyrst og fremst á almennum borgurum, drepur drauma þeirra og herðir þá fjötra sem stjórnvöld setja á venjulegt fólk.
Og Íranir eru auðvitað venjulegt fólk. Eina leiðin til þess að búa til efasemdir um að íbúar annarra landa séu öðruvísi en við sjálf er að takmarka samskipti við þá. Lítið dæmi til marks um það er að í Íran er bannað að nota Facebook. Þó er talið að 17 milljónir Írana noti síðuna – rúmlega helmingur þeirra sem hafa aðgang að netinu, eftir því sem íranskur netfrumkvöðull sagði nýlega á ráðstefnu í Reykjavík. Þetta er bara enn eitt lítið dæmi um hve hjörtum mannanna svipar saman og hversu vitlaust það er að halda eitthvað annað.
Aðdáendur Memphis Grizzlies sjá þetta vel þegar þeir horfa á Hamed Hassani spila. Hann er þá kominn í sama búning og hinir í liðinu og stefnir að sama marki. Stuðningsmenn liðsins gætu líklega ekki hugsað sér að eitthvað hræðilegt kæmi fyrir Hamed Hassani. En á sama tíma situr fólk undir stöðugum áróðri um að rétt sé að raska lífi milljóna venjulegra manna, kvenna og barna af sama uppruna – jafnvel binda á það endi.
Venjulegt fólk hefur engan áhuga á því að drepa annað venjulegt fólk. Stríðsmóður rennur ekki á nokkurn mann nema öryggi hans og afkomu sé ógnað. Bann við viðskiptum og hótanir um loftárásir búa því til óvini úr venjulegu fólki. Friðsöm samskipti og frjáls verslun draga hins vegar úr tortryggni og mylja smám saman niður kúgunartæki vondra stjórnvalda. Og þegar fólk kynnist og fær tækifæri til að klæðast sama búningi vinna saman, hvort sem það er í körfuknattleiksleik eða viðskiptum, þá eiga stjórnvöld erfiðara með að ljúga upp ástæðum til þess að skapa jarðveg fyrir blóðsúthellingar.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021