Ögmundur Jónassonar mætti í Silfrið um helgina og ræddi ýmis mál. Einar helstu athugasemdir ráðherrans við tillögur stjórnlagaráðs voru að þær gerðu “einkaeignarréttinum” of hátt undir höfði. Síðan dustaði hann rykið af marxískum hugmyndum eignarrétt af slíkum þrótti að í augun sveið.
Nú skal því ekki haldið fram að tillögur stjórnlagaráðs séu allar öskrandi snilld en sú gagnrýni sem ráðherrann setti fram var samt ótrúleg.
“Dreginn er taumur einkaeignarréttarins sem er eitthvað sem á að taka til hússins þíns eða íbúðarinnar þinnar eða bújarðarinnar sem þú nýtir en ekki til eignar þinnar alveg óháð hver hún er,” sagði ráðherran meðan hann veifaði hendi af vandlæti.
Orðræðan um “einkaeignarrétt”, sem í daglegu máli kallast eignarréttur, hófst ekki í gær og ekki í fyrradag. Þegar tillögur að stjórnarskrá Alþýðulýðveldisins Póllands komu til baka frá Jósef Stalín, stútfullar af gagnlegum athugasemdum, var ein þeirra einmitt sú að skipta ætti út hugtakinu “einkaeign” (útl. prívat) fyrir ýmist „einstaklingsbundna“ (útl. individual) eða „persónulega“ eign. Stjórnarskrám alþýðulýðvelda var þannig einungis ætlað að verja eignarrétt manna til hluta eins og húsnæðis eða búslóðar, ekki eignarrétt yfir “hverju sem er”, eins og til dæmis fyrirtækjum eða meiriháttar jarðnæði. Þeim var svo alls ekki ætlað að verja eignarrétt fyrirtækja eða annarra lögaðila á nokkrum hlut.
Auðvitað ætti strax að biðjast afsökunar á því að nefna íslenskan stjórnmálamann, sem fáar flugur hefur kramið á ferli sínum í sömu andrá og einn versta harðstjóra seinustu aldar. En tilgangurinn er fyrst og fremst að benda á að umræðan er ekki ný af nálinni, og er ekki komin til vegna falls Lehmans eða Kaupþings. Fyrir hundrað árum voru menn líka að halda þessu fram: Að nauðsynlegar samfélagslegar umbætur væru ekki mögulegar nema með afnámi eða veikingu eignarréttar. En einhvern veginn var það svo að þau ríki sem virtu eignarréttinn báru höfuð og herðar yfir þau sem gerðu það ekki. Á nánast öllum mælanlegum sviðum.
Það eiga flestir auðvelt, sama hvar í stjórnmálum þeir nú standa, með að taka undir að ritskoðun og pólitískar ofsóknir í kommúnistaríkjum hafi verið vondur hlutur. En að ríkisvædd framleiðsla og dreifing á nauðsynjum eða kerfisbundinn vanvirðing fyrir eignarrétti hafi gert þessi ríki fátæk og vanþróuð, þeirri hugsun eiga sumir enn erfitt með að kyngja.
Í sjálfu sér er það ákveðin hughreysting að vita að einhver stjórnmálamaður telji tillögur stjórnlagaráðs “draga um of taum einkaeignarréttarins”. Það segir manni að maður hafi ekki verið alveg slefandi í vinnunni þegar þessar tillögur voru samdar. En það er ekki gott að vita að á þingi og í ríkisstjórn sitji menn sem telji að þeir geti ekki náð sínu fram í stjórnmálum, nema að hefðbundin mannréttindi, sem eru hornsteinn velmegunar í okkar heimshluta, verði verulega veikt eða afnumin.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021