Marsmánuður á Íslandi er vorboði. Hann vekur upp gamlar kenndir og minnir mann á annað líf og litríkara, sumarlífið. Mars kemur í kjölfar verstu veðurmánaða ársins: janúar og hinum hrútleiðinlega febrúar, sem er svo tíðindalítill, þar sem mannsandinn rís einna hæst við að rífa í sig úldin kynfæri af sauðfé; að dag einn var tekin ákvörðun um að hafa hann einungis tuttugu og átta daga. Í marsmánuði er vorjafndægur, þar sem jafn langt er í lengstu nóttina og bjartasta daginn. Tíðafar oftar slæmt, en á það til að sýna leiftur af liðnum tíma og vekja upp vonir um grillmat og útiveru í aðeins minna en fjórtán flíkum.
Marsmánuður hefur á nýliðnum árum hlotið ný auðkenni. Annað þeirra er Mottumars þar sem íslenskir karlmenn safna sem myndarlegustu skeggi á efrivör til þess að áminna fólk um alvarleika krabbameins hjá körlum. Þessi siður veldur því að maður þarf að hafa sérstakt orð á því við erlenda gesti að efrivaratíska landsins sé ekki almennt svona mið-evrópsk heldur sé þetta einungis tímabundið. Annar viðburður sem setur skemmtilegan svip á þennan annars rólega mánuð er hátíðin Hönnunarmars þar sem fjöldi viðburða fer fram sem snúast allir á einn eða annan hátt um hönnun.
Umræður um hönnun í fjölmiðlum snúast oft fyrst og fremst um litla hluti sem eru seldar í ferðamannabúðum neðarlega á Laugarveginum (og stundum stóra rándýra hluti). Við búum í topp fimm þjóðfélagi sem lýsir sér á þann hátt að stærstur hluti neytenda kaupir ávallt fimm söluhæstu vörurnar. Þannig virtust 80% íslendinga kaupa sér Yrsu, Arnald, helstu matreiðslubók ársins (yfirleitt frá Hagkaupum) og ævisaga ársins ásamt einum erlendum smelli (gamli maðurinn þetta árið). Mugison selur 30.000 plötur árið 2011 og er svo söluhæstur fyrstu mánuði ársins 2012.
Svona er þetta einnig með hönnuði. Það þekkja flestir fimm nöfn á hönnuðum ef þeir geta talið þá saman úr ýmsum flokkum (Jensen, Gehry, Aalto, Armani, Klein) en það verður að teljast fátítt ef menn komast hærra. Íslenskir hönnuðir eru enn sem komið er ekki orðnar súperstjörnur en hafa verður í huga að aðrar norðurlandaþjóðir hafa áratugareynslu sem þær byggja á þar sem þær höfðu fyrir mörgum áratugum síðan heimsfræga hönnuði (Arne Jakobsen í Danmörku og Aalto í Finnlandi) sem sköpuðu þjóðum sínum vegsæld fyrir hönnun. Slíkir brautryðjendur leiða af sér meiri þekkingu og betri vitund á góðri hönnun í þjóðfélaginu, menntakerfið hugsar meira útfrá hönnun og brautin hefur verið rudd fyrir fleiri hönnuðum.
Góð hönnun eykur lífsgæði. Hún skapar fegurri heim og leysir vandamál. Hönnun er aðferðarfræði sem miðar að því að leysa vandamál á skapandi hátt. Hún getur komið að mun fleiri hlutum heldur en einungis þeim sem skapa krúttlega hluti í gluggum Laugarvegsins. Það er verkefni komandi ára og áratuga að byggja upp hönnunarhugsun á Íslandi. Verkefni eins og hönnunarmars eru flott verkfæri til þess að styrkja hönnunarhugsun. Eftir því sem fólk verður almennt með sterkari vitund fyrir hönnun og sér í lagi hönnunarhugsun þá smitast það yfir í aðrar faggreinar og verður (vonandi) til hagsbóta.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021