Jón Daníelsson hélt því fram í flestum fjölmiðlum landsins um síðustu helgi að einhliða upptaka annars gjaldmiðils væri óráð vegna þess að gera þyrfti ráð fyrir því að Seðlabankinn þyrfti að geta skipt út í peningaseðla öllum innstæðum bankakerfisins. Þetta er ekki algeng skoðun meðal hagfræðinga, enda er hún ekki í miklum takti við það hvernig peningamál virka í raunveruleikanum.
Áhyggjurnar af þeim toga sem Jón Daníelsson lýsir heyrast þó stundum í umræðunni. Þær byggjast á því að um leið og höftum yrði létt af fjármagsnflutningingum frá Íslandi þá yrði útstreymi frá landinu svo mikið að nánast öll verðmæti myndu sogast út. Þessar áhyggjur eru ágæt hugarleikfimi en lítið meira en það.
Reynslan sýnir að ríki sem búa við gjaldmiðil sem fólk er hætt að treysta upplifa hið gagnstæða þegar stjórnvöld horfast loks í augu við raunveruleikann og skipta út myntinni. Heildarflæði fjármagns er undantekningarlaust inn í hagkerfið en ekki út. Ekkert bendir til þess að reynsla Íslands yrði gagnstæð.
Ástæða þess að fjármagn leitar frekar inn í lönd eftir gjaldmiðlabreytingu er sú að ótraustur gjaldmiðill og gjaldeyrishöft gera það að verkum að fjárfestar eru hikandi við að senda peninga inn í viðkomandi hagkerfi, jafnvel þótt þar sé að finna arðbær verkefni. Myntin sjálf og efnahagslegar girðingar í kringum hagkerfin valda óvissu um arðsemi fjárfesingar umfram það sem verkefnið sjálft gerir. Með því að aflétta slíkum kvöðum geta fjárfestar tekið ákvörðun sína eingöngu út frá því hversu arðbært verkefnið er.
Mynt sem nýtur ekki trausts er viðskiptahindrun. Gjaldeyrishöft hækka þessa hindrun ennþá frekar. Þetta hefur að gera með eðli peninga. Hlutverk peninga er að vera mælieining á verðmæti, geymslustaður fyrir verðmæti og skiptimynt í viðskiptum. Ótraust mynt í höftum uppfyllir ekkert af þessum skilyrðum. Hún er ekki mælieining því engin leið er að vita hvert hið rétta vermæti hennar er. Hún er ekki góður geymslustaður fyrir verðmæti, eins og nýleg herðing gjaldeyrishafta sýnir, því eigandi ótraustu myntarinnar getur ekki gengið út frá því sem vísu að hægt sé að nota hana. Svona mynt þjónar heldur ekki því hlutverki að vera skiptimynt í viðskiptum nema að einhverju leyti innan þeirrar verndargirðingar þar sem notkun hennar er lögbundin.
Áhyggjurnar af því að öll fjárhagsleg verðmæti sogist út úr landinu við afléttingu hafta byggjast á þeirri forsendu á Íslandi séu engin raunveruleg verðmæti og engin verðmætasköpun – eða að minnsta kosti ákaflega lítil. Engin ástæða er til þess að ætla að þetta sé rétt forsenda. Á Íslandi eru mikil verðmæti og enn er verðmætasköpun hér með því mesta sem gerist í heiminum.
Íslenska krónan er því að einhverju leyti eins og vitlaus vog. Það er hennar vandi. Sá sem ætlar að kaupa poka af hveiti er líklega ekki spenntur fyrir því að láta vigta hana á vog sem gefur rangar upplýsingar um magnið. Hins vegar segir það enga sögu um hveitið sjálft og líklega væri enginn vandi að selja það ef líklegur kaupandi treysti því að rétt sé mælt. Ísland er í svipaðri stöðu gagnvart umheiminum. Hér er nóg af hveiti og ef við skiptum vitlausu voginni út fyrir réttari vog þá aukast líkurnar á því að kaupandi finnist.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021