Nafn Josephs nokkurs Kony er líklega með þekktari nöfnum veraldar í dag, alræmt væri þó líklega réttara orðalag. Á hann þessa nýtilkomnu upphefð að þakka samtökum sem kenna sig við heimildarmynd sem kom út árið 2004 og kallast Invisible Children. Hafa samtökin allt frá þeim tíma barist fyrir friði á svæðinu og handtöku leiðtoga LRA-samtakanna, áðurnefnds Josephs Kony.
Fer barátta þeirra hátt um þessar mundir vegna myndbands sem farið hefur líkt og eldur í sinu um vefinn og veggspjaldaherferð sem fara á fram þann 20. apríl næst komandi. Í myndbandinu eru samtökin kynnt sem og herferð sem gera á nafn Konys þekkt um heim allan til þess að þrýsta á um að sá liðstyrkur sem Barack Obama hefur ráðstafað til þess að þjálfa upp hersveitir í Úganda til þess að hafa hendur í hári Konys verði til staðar þar til árangur næst.
Hefur myndbandið farið víða og hlotið áhorf milljónatuga. Viðtökurnar hafa verið misjafnar en athyglin sem herferðin hefur vakið er gríðarleg um heim allan. Hefur hún að því leytinu haft árangur sem erfiði. Myndbandið er á köflum áhrifaríkt og sjónrænt vel heppnað. Það vekur til umhugsunar og kveikir fróðleiksþorsta. Eftir áhorf þess þyrstir mann í frekari upplýsingar. Upplýsingar um barnahernað, stríðsátök í mið-Afríku, voðaverk stríðandi aðila, afdrif brottnuminna barna og kvenna og svo ótal margt annað. En meira um það síðar. Lítum fyrst á nokkra þá þætti sem dregnir hafa verið fram herferðinni til hnjóðs.
Nefnt hefur verið að LRA sé í reyndinni ekki vandamál í Úganda og hafi ekki verið um árabil. Það er í sjálfu sér rétt. Einhver ár eru síðan LRA yfirgaf Úganda eftir tveggja áratuga vopnaskak í landinu. Hættan af liðsveitum Konys er áþreifanlegust í Kongó en einnig í Suður-Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu. Það skiptir þó engu því í raun er slík umræða flótti frá meginatriðum málsins. Voðaverk LRA og stríðsglæpir hafa ekkert með stað eða stund að gera og sú viðleitni að koma Kony undir manna hendur lítur sömu lögmálum. Hvort óheppilegt eða jafnvel ósmekklegt sé að draga upp þá mynd af Úganda dagsins í dag með þeim hætti sem gert er í myndbandinu er síðan önnur spurning sem ég ætla að láta ósvarað hér.
Invisible Children samtökin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að tala fyrir beitingu hervalds til þess að koma á friði. Það er rétt. Markmið herferðarinnar er fyrst og síðast það að halda hundrað hernaðarráðgjöfum Bandaríkjastjórnar á svæðinu til þess að vinna að handtöku Konys. Beiting valds til þess að stuðla að friði er aðferð sem er á stundum nauðsynleg að öðrum friðsamari reyndum. Falleg hugsun dugir ekki alltaf til. Í þessu tilfelli snýr þetta þó fyrst og síðast að því að koma eftirlýstum stríðsglæpamanni fyrir þar til gerðan dómstól.
Þá hafa ýmsir sérfræðingar bent á atriði sem stemma ekki samanber það sem nefnt var hér að ofan varðandi staðsetningu hersveita Konys og að of mikið sé gert úr ógninni sem af þeim stendur en hersveitir hans eru taldar telja eitthvað á þriðja hundrað manna í dag. Málefnið sé einfaldað um of og það að gera baráttuna skiljanlega sé gert á kostnað nákvæmni og staðreynda. Er þetta líklega alvarlegasta aðfinnslan sem fram hefur komið og helst til þess fallið að draga úr trúverðugleika herferðarinnar.
Eins og áður sagði er myndbandið áhrifaríkt og umhugsunarvert. Það vekur fróðleiksfýsn og krefst þess að tekin sé afstaða. Myndbandið er þó fyrst og fremst til kynningar á samtökunum og hugðarefnum þeirra. Það er einnig sett fram í fjáröflunarskyni. Hvoru tveggja hefur borið árangur en hér er líklega á ferðinni einhver best heppnaðasta herferð sinnar tegundar með tilliti til útbreiðslu og umtals. Að þessu leytinu til eru Invisible Children hvorki betri né verri heldur en önnur frjáls félagasamtök. Til þess að halda úti starfi þurfa að vera fjármunir í buddunni og til þess að afla þess fjár verður að hafa allar klær úti. Samkeppnin um samvisku heimsins er hörð og menn beita þeim aðferðum sem duga til þess að verða ofan á í þeirri samkeppni.
Það er ómögulegt að segja hvort þetta verði til að Kony verði handtekinn. Það skiptir heldur ekki öllu fyrir framtíðarhorfur svæðisins. Handtaka hans er ekki frumforsenda friðar í Mið-Afríku og raunar er ekkert sem bendir til þess að handtaka hans skipti nokkru hvað friðvænleika svæðisins varðar. Þetta er fyrst og síðast réttlætismál. Handtaka Konys snýr að því að sýna álíka skörfum fram á að fremji þeir stríðsglæpi verði allra leiða leitað til að hafa hendur í hári þeirra. Til þessa hefur talsvert vantað upp á það og menn gengið lausir oft svo áratugum skiptir.
Herferðin Kony-2012 skiptir í sjálfu sér ekki öllu. Það sem hins vegar skiptir máli er að nýta það umtal og þá athygli sem skapast hefur til þess að ræða málin á víðari grunni. Stríðsátökum fylgja mörg og snúin vandamál. Takist að nýta tækifærið og skapa umræðu um þau á breiðari grunni þá er gatan gengin til góðs –alfarið án tillits til réttmætis eða árangurs herferðar Invisible Children.
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012