Það hlýtur að einfalda stjórnsýslu hvers ríkis að geta sameinað helstu stefnu í utanríkismálum og efnahagsmálum í sömu aðgerðinni áratugum saman. Glæpafjölskyldan í Norður Kóreu hefur nú enn á ný tekið það sögulega skref að fresta kjarnorkuáætlun landsins í skiptum fyrir friðargjafir.
Eftir „árangursríkar“ samningaumleitanir Bandaríkjanna og yfirvalda í Pyongyang samþykktu ráðamenn í N-Kóreu að „hætta“ auðgun úrans og langdrægra eldflauga, í skiptum fyrir 240 þúsund tonn af matvælum. Engu að síður inniheldur samkomulagið ekki í sér að N-Kórea láti af hendi þau kjarnorkuvopn sem þau eiga nú þegar, heldur aðeins að þau þrói ekki með sér ný vopn.
Nú hefur sú stefna verið rekin í tvo áratugi að greiða Norður Kóreu sérstaklega fyrir að slá á frest uppbyggingu kjarnorkuvopna, en samt hefur landið aldrei verið jafn langt frá því að vera kjarnorkulaust. Í tvo áratugi hefur stefna Norður Kóreu verið sú, að hefja þróun kjarnorkuvopna til þess að geta kúgað Bandaríkin sérstaklega til þess að greiða fyrir að þeir hætti þessari iðju sinni, og það virkar að því virðist fullkomnlega. Erfitt er að sjá hvaða hvata, landið hefur til þess að láta af þessari iðju sinni, sem orðin er örugg ávísun á verðmæti og vogarafl.
Il fjölskyldan hefur einnig horft upp á hvern stallbróður sinn hverfa síðastliðinn áratug. Saddam Hussein, Mullah Omar, Osama Bin Laden og Gaddafi áttu það allir sameiginlegt, að eiga ekki gereyðingarvopn sambærileg við Il fjölskylduna. Ekki er óhugsandi að örlög þeirra roðhænsna hefði verið önnur og þeim hliðhollari ef þeir hefðu getað otað kjarnorkuvopnum framan í Bandaríkin þegar málefni þeirra voru til umfjöllunnar.
Með falli Sovétríkjanna missti N-Kórea annað stórvelda heimsins sem bakhjarl og mátti muna um minna. Snilldarlega tókst þeim að lokka hitt stórveldið til þess að veita sér mikil verðmæti með því að hefja þróun kjarnavopna og hætta því á víxl, til þess að fá ávísunarheftið á loft. Sú ráðstöfun, ásamt ýmissi glæpastarfssemi líkt og vopnasölu, falsa peninga og sígarettur hefur vegið þungt í efnahagsáætlun landsins.
Nú í febrúar sl. hélt sigurganga N-Kóreu áfram þegar þeir náðu í enn eitt skipti samningum við Bandaríkin um að þeir láti af augðun úrans og langdrægra eldflauga í skiptum fyrir „mannúðaraðstoð“. Þetta trikk virkar alveg jafn vel í dag og það gerði 1994, þrátt fyrir að í millitíðinni hafi landið komið sér upp kjarnorkuvopnum.
Staðan er því sú, að á tæpum 20 árum hefur N-Kórea margoft hætt þróun kjarnavopna í skiptum fyrir friðargjafir, og þrátt fyrir að hafa hætt þróuninni svona oft, sprengdu þeir að talið er kjarnorkusprengju 2006 og fá að halda þeim vopnum sem þeir hafa þróað hingað til. Það hlýtur að teljast stórsigur fyrir hvaða utanríkisráðuneyti að geta haft helsta stórveldi heimsins að athlægi reglulega með þessum hætti og jafnframt koma sér upp gereyðingarvopnum.
Eins er auðvelt að spá fyrir um að á næstu árum munu berast fregnir af „árangursríkum samningum“ milli Washington og Pyongyang þar sem dælt er verðmætum í Il fjölskylduna í skiptum fyrir að þau láti af hverri þeirri kjarnorkuáætlun sem þá er í gangi.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021