Árið 1978 hófst á Sunnudegi. Íslendingar voru 222.552 að tölu. Bíómiði kostaði 500 krónur. Tvær plötur með Donnu Summer kostuðu 4.600 krónur í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur. Símanúmer voru fimm stafir. Mánaðaráskrift að Morgunblaðinu kostaði 1.700 krónur. Fréttablaðið, DV og ýmsir fleiri fjölmiðlar voru ekki til.
Árið 1978 átti Davíð Oddsson eftir að vera framkvæmdastjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur í fjögur ár. Jóhannes Páll varð páfi og hélt því starfi í 26 ár. Það var herstöð á Miðnesheiði. Enn voru þrjú ár í myntbreytingu bankanna; ellefu ár í hrun Berlínarmúrsins.
Árið 1978 var James Callaghan forsætisráðherra Bretlands, Yasser Arafat stýrði PLO, Helmut Schmidt var kanslari Þýskalands. Fjögur ár voru í Falklandseyjastríðið. Tólf ár í Íraksstríðið.
Árið 1978 var eitt ár liðin frá því Elvis Presley dó. Diskóskyrtur og flatbotna skór voru ekki ennþá tilbúin til þess að víkja fyrir síðu að aftan og herðapúðum og voru lögin YMCA og Staying Alive á toppnum á flestum vinsældalistum heimsins.
Hár flæktist í burstum um heim allan er karlmenn reyndu að öðlast hinn heilaga kaleik: greiðslu sem bauð þyngdaraflinu birginn og nefndist „Zuko“ í höfuðið á aðalpersónu einnar vinsælasta bíómyndar tímabilsins, Grease. Enn voru þrettán ár í að John Travolta sem lék umræddan Danny Zuko giftist kynbombunni Kelly Preston svo hjörtu kvenna með flatara hár brustu. Þau eru enn óskilin.
Árið 1978 var ég fyrst og fremst til sem hugmynd að öðru barni foreldra minna og var síðasta hluta ársins kominn í ágætlega mótað form í maga móður minnar. Brunaliðið var á leiðinni og Geimsteinn sá um hestinn (þú áttir að sjá um hnakkinn). Þá fæddist fyrsta tæknifrjóvgunarbarnið, stúlkukindin Louise Joy Brown. Níu ár voru í að Kringlan opnaði. Microsoft var aðeins óbreytt fyrirtæki tveggja nörda í Albuquerque. Fólk var nýbyrjað að hlusta á kassettur í miklum mæli. Tölvufyrirtækið Apple var á mikilli siglingu með hinu besta diskettudrifi sem heimurinn hafði séð: Apple Disk II en hin byltingarkennda tölva Apple III var aðeins rafmagn milli heilafrumna í höfðinu á Steve nokkrum Jobs.
Þeir sem fæddust árið 1978 fara að nálgast hálffertugt og skulda of mikið í fasteignunum sínum. Þeir sem fjölguðu mannkyninu árið 1978 mega fara að búa sig undir rispur á lífeyrissjóðsinneignunum sínum.
Í júní árið 1978 var Jóhanna Sigurðardóttir kosin á Alþingi. Hefur hún setið af sér fjölmarga þjóðarleiðtoga frá kjöri sínu. Meira að segja Castro. Einungis Paul Biya í Kamerún (tók við völdum 1975) og Mohamed Abdelaziz í Vestur Sahara (1976) sitja enn (reyndar sitja tólf kóngar og drottningar sem voru tekin við 1978 enda er það þaulsetnara fólk). Hún hefur séð góðæri koma og fara, stríð koma og fara, hárið á Travolta færast aftur og nú síðast alskegg koma aftur í tísku. Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið af sér margar tískuhringrásir, fall kommúnismans, fjölmörg stjörnuhjónaböndin, heilu tæknibyltingarnar.
Bara, datt þetta í hug.
Viðhorfspistill í Fréttablaðinu: „Árið 1996“
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021