Nú liggur forseti vor Ólafur Ragnar Grímsson undir feldi og veltir fyrir sér hvort hann ætli að bjóða sig fram í 5. skipti. Eins og Ólafur sagði sjálfur þá gaf hann það skýrt til kynna að hann ætlaði ekki að halda áfram sem forseti en vegna “fjölda” áskorana ætlar hann nú að íhuga málið.
Allir sem hafa fylgst með þessu máli sjá í gegnum það leikrit sem hefur verið sett á fjalirnar á Bessastöðum. Ólafur lýsir því fyrst yfir að hann ætli að hætta en svo dúkka upp menn sem eru honum nátengdir og setja af stað mjög vafasama undirskriftarsöfnun. Allt er lagt í undirskriftarsöfnunina og engu til sparað, meðal annars var hún auglýst á öllum helstu vefmiðlum landsins og útvarpsmenn gengu svo langt að bjóðast til þess að skrá fólk inn. Engu að síður náðist eingöngu að safna saman um 30 þúsund manns sem vildu hvetja forsetann til þess að halda áfram. Samt er í raun ekki vitað hversu margir af þeim voru skráðir inn að þeim forspurðum, því engin leið var að kanna hvaða nöfn höfðu verið skráð þarna inn.
Næsti þáttur í leikritinu var svo blaðamannafundurinn þar sem Ólafur tók á móti undirskriftunum. Á þeim fundi komu fram jafn ótrúlegar upplýsingar og að okkur væri varla vært hér í landinu nema ef Ólafur héldi áfram og hvernig hann væri að fórna sér fyrir land og þjóð ef hann tæki slaginn aftur. Rúsínan í pylsuendanum var svo það að Ólafur fræddi lýðinn um að hann væri nánast ókeypis, þjóðin þyrfti hvort sem er að greiða honum eftirlaun! Auðvitað þýðir það bara eitt fyrir þjóðina, hún á að krýna Ólaf strax sem kóng, því ef þessi rök væru gild, þá væri rétt að æviráða forseta. Það væri lang ódýrast.
Sjaldan eða aldrei hefur verið jafnaugljóst að um tilbúna atburðarrás er að ræða. Ólafur neitaði því að sjálfsögðu þegar hann var spurður, nema hvað. Varla gat hann viðurkennt að vera heilinn að baki þessu. Þetta er snilldarlega uppsett, eina vandamálið er hversu leikritið er illa leikið. Ólafur situr samt með pálmann í höndunum og getur nú neitað þáttöku í leikritinu og þakkað öllum þeim sem skoruðu á hann.
Ég held þó að Ólafur sé í alvöru að vega og meta kostina. Hann hefur sjálfsagt átt von á því að mun fleiri myndu skrifa undir. Öll sú kynning sem undirskriftarsöfnunin fékk þýðir að hún hefur ekki farið fram hjá neinum. Þessi þátttaka hefur án efa verið gríðarleg vonbrigði fyrir Ólaf. Ólafur tekur einnig áhættu varðandi arflegð sína, hann var einn óvinsælasti forseti í sögu lýðveldisins undir mitt seinasta kjörtímabil en tókst með ótrúlegum hætti að gjörbreyta ímyndinni. Verði bjóði hann sig fram má búast við að ýmislegt sem ekki enn hefur verið dregið í kastljósið verði dregið fram og hann stendur því frammi fyrir þeirri áhættu að eyðilegga þá arflegð sem hann hefur skapað á seinni hluta kjörtímabilsins.
Ólafur gæti auk þess brotið enn eitt blað í sögu forsetaembættisins með því að fara fram aftur, því það er allt eins víst að Ólafur nái alls ekki endurkjöri. Hann væri þá fyrsti forseti í sögu lýðveldisins sem ekki næði endurkjöri. Það er alveg víst að Ólafur nýtur ekki þeirra vinsælda sem hann reiknaði með. Hingað til hafa þeir sem hafa boðið sig fram gegn sitjandi forseta ekki verið vinsælir eða þjóðþekktir einstaklingar. Komi fram alvöru framboð gegn Ólafi er allt eins víst að það framboð myndi sigra.
Því miður hafa þau nöfn sem nefnd hafa verið sem líklegir frambjóðendur ekki vakið neina sérstaka hrifningu þjóðarinnar og fáir skarað fram úr.
En maður skyldi aldrei segja aldrei. Þeim fjölgar sífellt sem sjá að það er tíminn en ekki greiðan sem gerir menn sköllótta og tími Ólafs er kominn.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020