Ef einhverjum fannst áfengislöggjöfin í þessu landi ekki fela í sér nógu mikla forræðishyggju, t.d. með banni á einkaverslun með áfengi og banni við auglýsingum á áfengi, þá hafa forsvarsmenn ÁTVR tekið sig til upp á síðkastið og bætt við nýju lagi ofan á allt klabbið – að ritskoða umbúðir á áfengi.
Dæmin eru orðin þónokkur. Það nýjasta er að ÁTVR hafnaði því að taka til sölu páskabjór Ölgerðarinnar þar sem hann þótti „of barnalegur“ en ekki er langt síðan rauðvín sem vísaði í hljómsveitina Mötorhead fékk sömu meðferð. Áfengur síder, sem sýndi beran kvenmannsfót, vel upp á læri, var hafnað vegna þess að hann þótti of klúr, Black Death brennivíninu sömuleiðis og Heilagur Papi þótti brjóta gegn velsæmi með tilliti til trúarbragða.
Áfengisframleiðendur þurfa að sæta því að þeim er óheimilt að selja vörur sínar á Íslandi, með þeirri undantekningu að þeir mega selja til ÁTVR, sem er því í fullkominni, ríkisvarinni einokunaraðstöðu til að stýra allri áfengisverslun í landinu. Þeir þurfa nú til viðbótar að búa við það að sitja undir fullkomnum geðþóttaákvörðunum stjórnenda fyrirtækisins, þar sem nánast engin mörk virðast sett fyrir því hvaða athugasemdir kunni að vera gerðar við útlit umbúða á áfengi. Saklaus mynd af munki er móðgandi í garð trúarbragða, að mati ÁTVR, en einhverra hluta vegna hefur aldrei nokkurn tíma borist athugasemd frá trúarfélögum eða kirkjunni vegna þessa eða þeim mikla fjölda áfengisumbúða sem eru með trúarlegar tilvísanir. Páskabjór Ölgerðarinnar er að höfða til barna því hann er svo barnalegur – þannig að það þarf þá að fara að setja sérstakar viðvaranir á áfengi um að börn skuli ekki drekka það? Ætli börn ruglist síður þá? Væntanlega ekki yngstu börnin sem kunna ekki að lesa – þau kynnu hvort eð er óvart að fá sér áfengi en eldri börnin sem kunna að lesa, gætu þá kynnt sér innihald bjórsins áður en þau stelast til að taka sopa? Kannski ekki alveg sem þetta gengur fyrir sig.
Frumlegasta höfnun til þessa hlýtur að teljast vera höfnun ÁTVR á Mötorhead-rauðvíninu, með þeim rökum að hljómsveitin syngi um stríð, óábyrgt kynlíf og fíkniefni. Sala á slíku víni myndi því hvetja til stríðs, óábyrgs kynlífs og fíkniefnaneyslu, enda segir það sig sjálft að næsta skref eftir eitt rauðvínsglas er að fá sér amfetamín og vígbúast, jafnvel lýsa yfir stríði. Að því loknu tekur sjálfsagt við óábyrgt kynlíf.
Það sem er athyglisverðast við þessa kaþólsku ritskoðun á áfengisumbúðum er hins vegar að ÁTVR hefur verið gert afturreka með þessi mál. Í fyrstu málunum þar sem fyrirtækið beitti þessari leið, þá voru ákvarðanir fyrirtækisins byggðar á vöruvalsreglum sem fyrirtækið setti sér sjálft. Í slíkum reglum er almennt að finna reglur um hvenær skila eigi vörum, hvert, á hvaða formi osfrv. – praktískt atriði um afhendingu áfengis, sem best fer á að fyrirtækið setji sjálft, enda engin ástæða til að stjórnvöld eða þingið séu að setja slíkar tæknireglur. Í lögum um ÁTVR og eftir atvikum reglugerð um fyrirtækið koma hins vegar fram meginmarkmið fyrirtækisins og stefna þess, enda eru lögin sett af lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Reglur um víðtækar heimildir ÁTVR til að meta umbúðir á áfengi út frá velsæmissjónarmiðum voru fyrst settar í vöruvalsreglur fyrirtækisins og voru því án nokkurrar lagaheimildar af neinu tagi.
Í áliti Umboðsmanns Alþingis var þetta fyrirkomulag gagnrýnt harðlega og tekið fram að stjórnvald gæti ekki án skýrrar lagaheimildar sett svo íþyngjadi reglur. Þegar af þeim sökum taldi Umboðsmaður Alþingis að eðlilegt væri að telja ákvörðun fyrirtækisins um synjun ólögmæta.
Í stað þess að þessi þróun væri einfaldlega stöðvuð í tilefni þeirra athugasemda sem fram höfðu komið, tóku þingmenn landsins þá fráleitu ákvörðun í staðinn að setja ný og „nútímalegri“ lög um ÁTVR í fyrra og setja þar inn í lögin nánast samhljóða heimildir og ÁTVR hafði sjálft sett inn í vöruvalsreglurnar – og verið gert afturreka með. Þannig var ruglið í raun lögleitt og ágætt að hafa það bak við eyrað þegar fréttir berast af hverri „snilldar“ákvörðuninni á fætur öðrum frá ritskoðurum ÁTVR að þingmenn hafa veitt þessu sérstakt samþykki sitt og í raun fallist á að það sé eðlilegast að ÁTVR skrifi lögin um sig sjálft. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn nýju lögunum.
Sjálfsagt geta komið upp þau tilfelli þar sem áfengisumbúðir eru svo meiðandi og óviðeigandi að ekki sé hægt að hleypa þeim í gegn, t.d. ef í þeim fælist hatursboðskapur í garð tiltekinna hópa eða eitthvað slíkt. Um slík tilfelli gilda hins vegar almennar reglur, s.s. að óheimilt er að hegningarlögum að ráðast með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt á mann eða hóp manna auk þess sem meiðyrðalöggjöfin gerir það að verkum að unnt er að þeir sem telja á sér brotið geta farið í mál og sótt rétt sinn. Að halda úti sérstöku eftirlitsapparati í ÁTVR til að stöðva ólíklegustu umbúðir, á forsendum sem enginn skilur og langflestum finnast hlægilegar, er hins vegar ekki bara fráleitt heldur beinlínis skaðlegt gagnvart framleiðendum og innflytendum hér á landi.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021