Síðari umræða um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs var ekki þingsins besta stund. Í raun er öll meðferð Alþingis á tillögum ráðsins þinginu til vansa og skipulag þess leiðangurs sem framundan er með þeim hætti að jafnvel þolinmóðustu farþegarnir geta ekki annað en stigið frá borði. Því miður.
Í stuttu máli er máli þetta: Þegar stjórnlagaráðið skilaði af sér verki sínu gerði það það með eftirfarandi orðum í skilabréfi með tillögunum.
„Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“
Og hvaða tillögur liggja á þessari stundu fyrir af hálfu þingsins varðandi breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs? Engar. Ekki ein einasta. Kannski koma einhverjar fyrir helgi, segja menn. Kannski eftir helgi. Kannski fær ráðið einhverjar spurningar frá einni þingnefnd. Kannski. En mér sýnist í fljótu bragði að á því hálfu ári sem þingið hefur haft tillögurnar til umræðu hafi ekki farið fram neinar raunverulegar efnislegar umræður um inntak þeirra sjálfra. Né heldur hefur þingið farið í þá vinnu að rýna tillögurnar af einhverri alvöru, ýmist til að finna hugsanlega ágalla eða styrkja grundvöll þeirra stjórnarskrárbreytinga sem lagðar hafa verið fram.
Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Það má eflaust reyna að afgreiða alla gagnrýni þeirra sem efins eru um þörf ítarlegum breytingum á stjórnarskráni með að þeir „vilji ekki leyfa þjóðinni að kjósa um stjórnarskrá“ eða með öðrum viðlíka frösum, en staðreyndin er sú að þeir þingmenn sem ýtt hafa þessu máli áfram nú, hafa algjörlega vanrækt þær skyldur sem lagðar eru á þá sem stjórnarskrárgjafa.
Aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslur, því það er nokkuð sem mun vera rætt mikið um í þessu samhengi. Í Sviss fara tillögur sem lagðar eru í þjóðaratkvæði samt í þinglega meðferð. Hinir kjörnu fulltrúar mynda sér skoðun á tillögum sem koma frá almenningi, stundum leggja þeir til við kjósendur að þeir felli tillögurnar, stundum leggja þeir til breytingar sem lagðar eru í atkvæði samhliða. Skylda þinga er ekki minni þótt ferlið endi með þjóðaratkvæði. Hér virðast menn hins vegar telja sig sérstaka riddar beins lýðræðis þegar þeir setja hluti í þjóðaratkvæði, án þess að taka til þeirra afstöðu eða skoða þá að nokkru ráði.
Staðan er því þessi: eftir fjóra mánuði verður kosið um einn hlut sem ekki er búið að skoða og nokkra aðra hluti sem ekki er búið að ákveða. Um niðurstöðuna verður rifist. Hvað ef 51% samþykkir tillögurnar? Er mönnum þá stætt að breyta þeim? Hvað ef 51% fellir? Ætla menn þá að taka því eða reyna að lappa upp á tillögurnar? Hvernig verður farið með úrslit undirspurninganna? Ég hef hvergi séð að þetta væri skýrt. Nefndarálit með tillögunni ber vonir um að „niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu nýtist Alþingi vel við áframhaldandi meðferð málsins.“ Hljómar nákvæmlega þannig að stjórnmálamenn eigi að lesa í „leiðsögn almennings“ eftir eigin geðþótta. Það er ekki góð hugmynd.
Það er vissulega þakkarvert að maður sé í hópi þeirra sem þingið treystir á ný til að hjálpa til við það ferli að leggja til breytingar á stjórnarskrá. En menn þurfa að þekkja sín takmörk. Ráðgefandi stjórnlagaráð mun ekki setja stjórnarskrá. Það mun þingið gera. Og fyrst þingið virðist hvorki hafa skoðun á stjórnarskrá né vilja til að rýna af viti í þær tillögur sem því berast, þá hef ég að sinni takmarkaðan áhuga á að veita því frekari ráð.
Höfundur er fyrrverandi formaður C-nefndar stjórnlagaráðs.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021