„Perdida en el carnaval de Montañita!“ Þetta voru skilaboð á Facebook í gær frá pólskri vinkonu minni sem býr í strandbænum Montañita í Ekvador. Hún var sem sagt týnd á karnivalinu – týnd í gleðinni. Í Ekvador, sem og í fleiri ríkjum Rómönsku Ameríku, er heil helgi lögð undir karnivalið en hinir eiginlegu „karnival-dagar“ eru mánudagurinn og þriðjudagurinn. Á karnivaldögunum borðum við Íslendingar rjómabollur og saltkjöt en hvað ætli vinkona mín hafi verið að gera í Montañita sem var svona frábært?
Svo heppilega vill til að karnival er haldið á þeim tíma ársins sem „la temporada“ er í hámarki í Suður-Ameríku – „la temporada“ er strandtímabilið. Það segir sig sjálft að þá er besta veðrið til þess að fara á ströndina: sólin skín og sjórinn er heitur. Það rignir reyndar stundum svolítið mikið en það er bara ágætt til þess að kæla sig aðeins niður.
Ein af karnival-hefðunum í Ekvador er einmitt fólgin í því að kæla aðra niður. Á meðan íslensk börn fara í snjókast í febrúar fara ekvadorísk börn í vatnsslag. Vatnsblöðrum er kastað og vatni hellt úr fötum, bæði yfir þáttakendur í vatnsslagnum sem og gangandi vegfarendur. Vatnsskemmtunin mælist auðvitað misvel fyrir hjá fullorðna fólkinu og hafa verið gerðar tilraunir til þess að takmarka vatnsstríðnina, og jafnvel banna slíka leiki, en gamalgrónar hefðir víkja ekki svo auðveldlega, sérstaklega ekki þegar þær eru jafnskemmtilegar og þessi.
Önnur karnival-hefð er að fara í skrúðgöngu, já eða að horfa á skrúðgöngu. Þekktustu skrúðgöngurnar eru án efa þær sem haldnar eru í Brasilíu, og þá sérstaklega þær sem fram fara í Rio de Janeiro. Haldnar eru hátt í hundrað skrúðgöngur í hverfum borgarinnar auk þess sem sambaskólarnir keppa sín á milli um besta atriði karnivalsins ár hvert. Ferðamenn flykkjast til borgarinnar til að upplifa einstaka stemninguna en strandborgin Salvador de Bahía er einnig vinsæll áfangastaður.
Á karnivali er markmiðið að skemmta sér og það ærlega. Hvers vegna? Jú, vegna þess að að karnivali loknu tekur páskafastan við. Þá á ekki að skemmta sér né gera vel við sig í mat og drykk. Ég minnist þess reyndar ekki að páskafastan hafi verið tekin svo hátíðlega í Ekvador en þrátt fyrir það skemmta allir sér vel á karnivali. Svo vel að þeir týnast jafnvel í gleðinni, eins og pólska vinkonan mín.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021