Eftir rúmt ár verða alþingiskosningar. Þá mun núverandi ríkisstjórn leggja verk sín í dóm kjósenda og leitast eftir því að endurnýja umboð sitt fyrir stjórn landsins í önnur fjögur ár. Það er næsta víst að stærsta kosningamál sem kjósendur munu spyrja frambjóðendur út í á næstu mánuðum verður: „hvað ætlið þið að gera í skuldamálum?“
Útfærsla á íslensku húsnæðislánakerfi hefur oft reynst hálf brokkgeng. Þegar fólk kaupir húsnæði þá gerir það þríhliða veðmál: að húsnæðisverð, laun og verðbólga hækki í jöfnun takti. Í kjölfar efnahagshrunsins þá byrjaði verðbólga að hækka hratt á sama tíma og húsnæðisverð og laun stóðu í stað eða lækkuðu. Þetta leiddi til þess að eigið fé fólks í fasteignum hvarf og gríðarlegur fjöldi heimila varð bókhaldslega gjaldþrota.
Lilja Mósesdóttir hefur nokkrum sinnum bent á að Ísland sé fyrsta landið í heiminum sem glímir við fjármálakreppu þar sem skuldir almennings eru verðtryggðar en í gegnum tíðina hafa skuldir almennings í fjármálakreppum brunnið í verðbólgubáli. Þar hækka laun og húsnæðisverð samtímis en lán staðið eftir óvísitölutengd.
Þegar svona stór hluti landsmanna er bókhaldslega gjaldþrota þá standa menn frammi fyrir þeirri pólitísku spurningu hvort réttlætanlegt sé að ríkisvaldið sé með inngrip eða hvort markaðurinn eigi að sjá sjálfur um að hreinsa yfirskuldsetninguna úr kerfinu. Um þetta hafa staðið miklar umræður frá október 2008 Komið hafa fram ýmsar tillögur en svar ríkisvaldsins verið að láta markaðinn sem mest sjá um hreinsunarstarfið en þó tók ríkisvaldið að sér samræmingarhlutverk við svokallaða 110% leið sem gengur út á það að hreinsa út yfir-yfirskuldsetningu á fasteignum en halda eftir 10% yfirskuldsetningu. Þetta var meðal annars til þess að gæta þess réttlætismáls að áhættufíklar fengju ekki verðlaun fyrir hegðun sína.
Annað sem er sérstakt við ástand mála á Íslandi er að skuldarar skiptast í tvo flokka: gjaldeyrislán og verðtryggð lán. Þessi tvískipting leiddi lengi vel til þess að umræður um yfirskuldsetningu landsmanna snerist minna um efnahagslega nauðsyn þess að skuldsetning heimilanna sé í takt við tekjur þeirra til þess að tryggja neyslu þeirra, en snerist þess í stað um réttlæti og jafnræði á milli þessa tveggja flokka. Þar töldu þeir sem höfðu tekið verðtryggð lán það siðferðislega rétt að engar afskriftir kæmu til aðila sem tóku erlend lán þar sem þeir sýndu af sér áhættusama hegðun.
Þetta ástand gerbreyttist þegar dómur féll árið 2010 þar sem erlend lán voru talin ólögleg. Í kjölfarið þá var óvissa um hvaða vextir ættu að gilda á lánum þar sem þau voru hvorki með vísitölutengingu né bundið gengi gjaldmiðla. Niðurstaðan þá var sú að Alþingi setti lög sem sögðu að reikna ætti upp lánin miðað við að þau hefðu frá upphafi miðast við vexti Seðlabankans. Við þessa aðgerð þá vænkaðist hagur þeirra sem tóku erlend lán nokkuð og líktust í mörgum tilfellum stöðu miðað við að hafa tekið verðtryggt lán.
Í gær féll dómur í hæstarétti þar sem kom fram að lög Alþingis þar sem farið var fram á að endurreikna lán aftur í tímann stæðust ekki. Ef þessi dómur gildir almennt yfir línuna hjá húsnæðislánum almennings þá þýðir þetta aftur að hagur þeirra sem tóku erlend lán vænkast enn og er staða þeirra nú í sumum tilfellum mun betri en þeirra sem tóku verðtryggð lán.
Handhafar erlendra lána munu í kjölfar dóms Hæstaréttar standa betur að vígi en nágrannar þeirra sem sýndu meiri varkárni og tóku verðtryggð lán og fengu jafnvel lánuð veð hjá foreldrum. Það er þessi hópur „kúgaðra millistéttaaula“ sem verður líklegast háværasti kjósendahópurinn fyrir næstu kosningar.
Spurningin er hverjir ætla sér að bjóða í hann og hversu raunhæfar eru hugmyndir þeirra.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021